Escorihuela Gascon Gran Reserva Malbec 2017 **** 1/2 (91)

Bodegas Escorihuela Gascon var stofnað í Mendoza árið 1884 af hinum 24 ára hugsjónamanni Miguel Escorihuela Gascon sem hafði þá nýlega flust frá Spáni til Argentínu. Jafnt og þétt stækkaði víngerðin og það sem hófst sem lítil víngerð með 17 hektara land er nú orðað gríðarlega virt vörumerki í heimi argentískra vína. Víngerðin er á tveimur stöðum í Mendoza og er önnur víngerðin, sú upprunallega og elsta starfandi víngerð borgarinnar, staðsett í borginni á meðan að hitt sem var opnað 2008 er staðsett sunnan við borgina í Luján de Cujo.

Hér er á ferðinni vín sem er gert úr 100% Malbec og kemur ávöxturinn frá Agrelo vínekrunni þeirra í Luján de Cujo þar sem að vínviðurinn vex í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli þar sem að hlýjir dagar og svalar nætur gefa ávextinum þroskann sem hann þarf án þess að missa ferskleikann sem er svo nauðsýnilegur fyrir jafnvægið. Vínið er svo geymt í frönskum eikartunnum í 12 mánuði og flöskunni í svipaðan tíma áður en það er sett á markað.

Ilmurinn er þéttur og margslunginn í fyrstu og þarf smá öndun til að opna sig almennilega, en opnar sig á endanum á krydduðum tónum í bland við dökkan ávöxt, kaffi, súkkulaði, tóbak, leður og smá reyk. Virkilega magnaður ilmur sem þarf að gefa sér góðan tíma í að meta. Það er bragðmikið og silkimjúkt í munni með mjúk og flott tannín og góðan ferskleika sem styðja vel við bakið á byggingu vínsins og þroskaðan ávöxt þess. Langt og frábært eftirbragð sem hangir á samspil ávaxtar og krydds og rétt í blálokin kemur fram nettur sedrusviðskeimur. Frábær Malbec, svo einfalt er það!

Okkar álit: Alvöru vín. Margslungið, bragðmikið og stór karakter. Frábært!

Verð 3.995 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply