Trapiche Perfiles Textura Fina 2018 **** (86)

Trapiche er nafn sem að flestir ættu að þekkja sem hafa drukkið argentísk vín, eða bara drukkið vín yfirhöfuð. Víngerðin var stofnuð árið 1883, ræður yfir gríðarstórt landsvæði sem gerir hana þá stærstu í Argentínu og hefur þar að auki unnið til ótal verðlauna á hinum alþjóðlega leikvelli. Á sama tíma og maður getur ekki annað en borið virðingu fyrir þessum staðreyndum þá er alltaf lítill púki í manni sem tekur fjöldaframleiddum verðlaunavínum frá risaframleiðanda með góðum fyrirvara enda ekkert óeðlilegt að gera ögn meiri kröfur.

Perfiles línan frá Trapiche snýst um jarðveginn og gerði víngerðin margar tilraunir með mismunandi jarðvegi og mismunandi þrúgur til að komast á þann stað sem þetta verkefni er núna. Textura Fina er er vísun í fínlegan leirkenndan moldarjarðveg sem Malbec þrúgan þrífst vel í og að mati Trapiche leyfir þrúgunni að sýna sitt besta andlit. Ávöxturinn kemur frá hinu gullfallega Agrelo svæði í Luján de Cujo sem er staðsett um 30 km sunnan við Mendoza borg.

Maður er smástund að ná að kynnast þessu víni en þegar maður kemst í gegn tekur á móti manni opinn, þéttur og flauelsmjúkur ilmur af plómum, krækiberjum, sólberjum og léttur ryktónn. Dæmigerður og ansi vinalegur Malbec karakter sem  heldur svo áfram á sömu braut í munni og er með góðan ferskleika sem heldur þessu vel saman ásamt sterkbyggðum tannínum. Krækiberin eru aftur áberandi ásamt dökkum berjum eins og sólber en einnig leynast, plómur, léttir negulnaglar og smá tóbaksvottur þarna. Mælum með að drekka við 16-18 gráður.

Okkar álit: Frekar ferskt og gríðarlega vel gert Malbec vín. Kallar á mat!

Einkunn: **** (86)

Verð: 2.999 kr

You might be interested in …

Leave a Reply