E. Guigal Chateauneuf-du-pape 2016 **** ½ (93)

Guigal er af mörgum talinn ókrýndur kóngur Rónardalsins en það eru eflaust margir sem eru ósammála þessari óformlegu krýningu hans. Vínsíðurnar ætla svosem ekki að leggja sinn dóm á þessa nafnbót en það er alveg á hreinu að nafnið Guigal á alltaf að vera mjög ofarlega á listanum þegar rætt er um bestu framleiðendur dalsins og má auðveldlega færa rök fyrir því að hann eigi að vera ofarlega á listanum yfir bestu vínframleiðendur heims.

Hér erum við með vín frá Chateauneuf-du-pape sem er svæði sem ætti að vera Íslendingum kunnugt, allavega í víngerðarlegu samhengi. Svæðið leyfir notkun á 13 mismunandi þrúgutegundum í rauðvínum en hér fá hinar hefðbundnu grenache (70%), mourvèdre (15%) og syrah (10%) að njóta sín þó að aðrar þrúgur fylla upp blönduna. Vínið fær svo að þroskast í 2 ár í stórum eikartunnum (foudres) til að fá auka vídd í bragðflóruna.

Þessi tiltekni árgangur, 2016, er af mögrum talinn einn af betri ágröngum í nokkur ár í Suður Rhône og þá sérstaklega í Chateauneuf-du-pape. Allflestir framleiðendur gerði framúrskarandi vín og vilja einhverjir jafnvel meina að þeir hafi framleitt bestu vín sem víngerðin þeirra hefur nokkurn tímann framleitt þetta árið. Tímabilið var nokkuð lengra en venjulegt er sem gaf ávextinum góðan tíma til að ná jöfnum þroska og svalar nætur voru kærkomið mótvægi við heita daga þannig að aðstæður voru nær fullkomnar.

Ilmurinn er opinn og kraftmikill með gríðarlega vel þroskuð og jafnvel sultuð kirsuber, jarðarber, brómber í bland við fersk rifsber og svartan pipar. Sömu sögu er að segja í munni, kraftmikið vín með frábær og í senn mjúk tannín og vel þroskaðan ávöxt. Það er virkilega glæsileg holning á þessu víni og endar vínið á löngu og frábæru eftirbragði sem einkennist af gríðarlega safaríkum ávextinum. Þetta er vín sem á nóg eftir og ég hlakka til að smakka þennan stórkostlega árgang eftir nokkur ár.

Okkar álit: Stórt og stæðilegt vín með ómótstæðilegan ávöxt og glæsilega byggingu. Á pottþétt eftir að sýna sitt besta þó það sé nú þegar frábært. Mæli með að leggja nokkrar flöskur til hliðar og geyma.

Verð: 6.998 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply