Trivento Juntos Malbec Cabernet Franc 2015 **** ½ (92)

Eins og eflaust einhverjir vita þá er Trivento víngerðin í eigu vínrisans Concha Y Toro, sem er eitt af 10 stærstu víngerðarhúsum í heiminum í dag, og auk Trivento þá heyra þekkt vörumerki eins og Vina Maipo og Cono Sur sem bæði eru staðsett í Chile undir Concha Y Toro. Þetta þýðir auðvitað að þessi gríðarstóra víngerð hefur yfir afar miklum og dýrmætum auðlindum að ráða og er ég ekki bara að meina að buddan þeirra sé útblásin, sem hún vissulega er, heldur er mannauðurinn og þekkingin sem þeir ráða yfir ýfið meiri en hjá hinum „almennu“ víngerðarhúsum.

Hér leiða víngerðarmennirnir Enrique Tirado frá Chile, sem sér um gerð Don Melchor meðal annars, og Victoria Prandina frá Argentínu, sem er konan bakvið stórvínið Eolo frá Trivento, saman hesta sína í þeim tilgangi að nýta sérþekkingu beggja. Vínið er blanda af 75% Malbec og 25% Cabernet Franc og kemur ávöxturinn annars vegar frá hinu margrómaða Luján de Cujo svæði (Malbec) og hins vegar Paraje Altamira (Cabernet Franc). Vínið fær svo að dvelja í 18 mánuði í frönskum eikartunnum þar sem 40% af tunnunum eru nýjar og restin annars árs tunnur.

Ilmurinn opinn, dökkur og gríðarlega margslunginn. Dökkur ávöxtur á borð við sólber, bláber, krækiber og plómur er í frábæru samblandi við kaffi-, súkkúlaði og kryddaða tóna en einnig leynist þarna vottur af tóbaki og smá ryk. Geggjaður ilmur sem krefst athygli. Í munni er það þétt og bragðmikið með mikla áherslu á dökkann ávöxtinn og eikinni. Tannínin eru flauelsmjúk og þökk sé góðum ferskeika þá er þetta ekki of þunglamalegt. Eftirbragðið er langt og einstaklega ljúffengt.

Okkar álit: Stórt og glæsilegt vín þar sem Cabernet Franc gefur vini sínum Malbec nýja og tignalega vídd.

Verð: 4.998 kr

You might be interested in …

Leave a Reply