Loveblock Sauvignon Blanc 2020 **** ½ (90)

Loveblock var stofnað árið 2004 af þeim hjónum Erica og Kim Crawford og ættu þeir sem þekkja aðeins til Nýsjálenskra vína að kannast við nafnið, þar sem að þau hjónin höfðu nokkrum árum áður stofnað hina vel þekktu sýndarvíngerð Kim Crawford. Árið 2003 seldu þau vörumerkið fyrir ansi góða upphæð, sem á þeim tíma þótti afar fréttnæmt þar sem að Kim Crawford var einungis vörumerki og engar raunverulegar eignir fylgdu merkinu, og þó svo að samkeppnisklausa hamlaði þeim að selja vín næstu 6 árin þá kom ekkert í veg fyrir að þau keyptu 100 hektara óræktað land til að hefja ræktun á vínvið.

Markmið þeirra er að rækta vínvið og framleiða vín á eins lífrænan hátt og hægt er með lágmarks inngrip, hvort sem það er í vínekrunum eða í víngerðinni sjálfri. Þetta tiltekna vín er gott dæmi um þá hugmyndafræði þar sem að vínið er þykkara og nánast sætara en önnur sýruríkari og grænari vín úr sömu þrúgu frá Nýja Sjálandi. Ástæðan er meðal annars sú að að á vínviðnum hjá þeim vex minna magn af laufi þar sem að plantan keppir við alls konar illgresi sem vex í kringum vínviðinn og þar sem að laufblöðin eru færri og minni þá eru vínberin ekki jafn mikið í skugga og annars staðar. Minni skuggi þýðir auðvitað meiri þroski og minni ferskleiki. Það er því ekki furða að þessi sauvignon blanc virki aðeins búttaðari en aðrir kollegar hans. Til að setja punktinn yfir i-ið þá er vínið gerjað í amfórum (e. Amphora) og steinsteypueggjum og er villt ger notað.

Ilmurinn er gríðarlega ferskur og afskaplega dæmigerður Nýja Sjálands sauvignon blanc ilmur með sítrus, stikilsberjum, grösugum tónum og dass af suðrænum ávöxtum, sér í lagi melónu og perum. Í munni er ávöxturinn hins vegar aðeins þroskaðri og holdmeiri sem brýtur aðeins upp hinn dæmigerða sauvignon blanc karakter sem er að finna í nefi en þar sem að þetta er gríðarlega ljúffengur ávöxtur þá er allt fyrirgefið. Eftirbragðið er langt, ljúffengt og aðeins þykkara en ég hef vanist af sambærilegum vínum sem gerir þetta í raun aðgengilegara.

Okkar álit: Óhefðbundið en gríðarlega aðlaðandi og „easy drinking“ sauvignon blanc frá Nýja Sjálandi.

Verð 3.290 kr

You might be interested in …

Leave a Reply