Vinyes Ocults, eða falda vínekran eins og það þýðist af katalönsku, var stofnað af Tomás Stahringer árið 2007 og hófst sem bílskúraævintýri, bókstaflega. Hann framleiddi rúma 400 lítra af rauðvíni í bílskúrnum hjá foreldrum sínum sem seldust eins og heitar lummur og gaf það honum byr undir báða vængi að framleiða meira og eignast land undir sínar eigin vínekrur. Í dag á hann um 7 hektrara land undir vínvið í Tupungato, sem er staðsett í Uco dalnum, og er vínekran umvafinn háum öspum sem fela vínekrurnar hálfpartinn sem skýrir nafnið á víngerðinni.
Ávöxturinn kemur sem fyrr segir frá vínekrum víngerðarinnar í Tupungato og eru ekrurnar í um 1000 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er sér víninu fyrir góðum ferskleika. Vínið er síðan látið þroskast í 12 mánuði á franskri og amerískri eik ýmist ný eða eins til tveggja ára (þ.e.a.s. notað einu sinni eða tvisvar).
Ferskur og klassískur ilmur af sólberjum og plómum en með þeim félögunum er ilmur af eukaliptus og smá myntu, sem er ekki alveg jafn klassíkst, í bland við fjólur, léttri vanillu og kaffitónum. Það er bragðmikið og þétt en þó frekar fágað með þennan sama sólberja, plómu, fjólu keim með vott af eukaliptus. Tannín eru nokkuð þétt, jafnvægi gott og eftirbragð nokkuð langlíft og skemmtilegt.
Okkar álit: Öðruvísi og mjög áhugavert vín sem jaðrar við að vera nördalegt. Kunnum að meta svoleiðis
Verð: 5.490 kr