M. Chapoutier Belleruche Côtes du Rhône 2019 **** (88)

Belleruche Côtes du Rhône hefur verið tíður gestur hjá okkur í gegnum árin og hefur þetta vín nánast aldrei ollið okkur vonbrigðum þar sem 2017 árgangurinn var sérstaklega eftirminnilegur. Vínið kemur úr smiðju Michel Chapoutier, sem er einn af máttarstólpum Rónardalsins þó víðar væri leitað, og hefur sú víngerð, Maison Chapoutier, verið að síðan 1808.

Vínið er blanda af grenache og syrah þar sem sú fyrrnefnda er í meirihluta og kemur ávöxturinn frá nokkrum mismunandi svæðum innan Côtes du Rhône þar sem nánast öll svæði eru með mismunandi jarðveg. Vínið er óeikað og gerir það hinum frábæra grenache ávexti kleift að láta ljós sitt skína.

Ilmurinn er pínu lokaður í byrjun en opnast mjög fljótt. Dökkur ilmur með fjólu, bláberjum, hindberjum og sólberjum í aðalhlutverki en þarna leynist líka mildur pipar og vottur af eukaliptus ef vel er leitað. Geggjaður ilmur. Í munni er það nokkuð kraftmikið og heldur ávöxturinn sem betur fer sínu striki, tannín eru ennþá nokkuð seig og gefa ávextinum góðan stuðning en á sama tíma eiga þau eftir slípast til. Þetta er nokkuð kröftugur árgangur miðað við það sem við höfum smakkað í gegnum árin en með þeim margslungnari.

Okkar álit: Frábært vín. Kröftugt og með frábæran ávöxt en þarf aðeins að slípast til.

Verð 2.795 kr

You might be interested in …

Leave a Reply