Eins og naskir lesendur Vínsíðanna hafa mögulega tekið eftir hafa vín síðustu 2 vikna einskorðast við vín frá Argentínu og sérstaklega úr þrúgunni Malbec. Við tókum virkilega góða úttekt á þeim vínum sem voru í boði í þessari deild og hér erum við með eitt af eftirminnilegri vínum úr því smakki. Eins og kom fram í umfjöllun okkar um Trapiche Perfiles Textura Fina 2018 þá er Trapiche eitt af leiðandi víngerðarhúsum Mendoza héraðsins og í raun Argentínu eins og hún leggur sig og var þetta vín, Gran Medalla Malbec fyrst gefið út í tilefni af 125 ára afmæli víngerðarinnar árið 2008.
Þetta er einnar ekru vín og þar sem að víngerðin leggur mikla áherslu á gæði ávaxtarins fyrir þetta vín kemur hann frá einni af betri vínekru víngerðarinnar, Fince Los Arboles sem er staðsett í Uco dalnum sunnan við Mendoza borg. Sand- og leirkenndur jarðvegur ekrunnar, staðsetning hennar gagnvart sólinni og sú staðreynd að hún er í um 1.250 metra hæð yfir sjávarmáli gera það að verkum að malbec þrúgan þrífst einstaklega vel. Vínið fær svo að þroskast í 18 mánuði á nýjum frönskum eikartunnum og aðra 6 mánuði í flöskunum og er því kominn smá þroski í vínið strax við fyrsta söludag.
Ilmurinn er frekar heitur í upphafi en eftir dálitla öndun kemur fram dökkur og þéttbyggður ilmur af plómum, sólberjum, kirsuberjum, vindlakassa, vanillu, smá lavender og hvítum pipar. Svolítið erfitt að kynnast þessu almennilega en það verðlaunar þig hressilega á endanum með frábærum ilm. Það er þétt og bragðmikið í munni með frábær tannín og er ávöxturinn algjörlega „on point“ hérna. Safarík sólberin, krækiberin og plómurnar mynda fallegt bandalag við kryddin og vanilluna úr eikinni og er ferskleikinn akkúrat réttur til halda vel utan um þetta allt saman. Geggjað!
Okkar álit: Ávöxtur sem er to die for, frábært jafnvægi og stór karakter. Vel gert.
Verð: 3.999 kr