Bodvar No. 7 Rosé 2020 **** 1/2 (90)

Nú er sólin farin að skína, vorið svo gott sem komið og margur íslendingurinn farinn að rífa fram stuttbuxurnar, hlýrabolinn og sólarvörnina með vonarglampa í augunum og bros á vör. Þetta er uppáhaldstíminn minn árinu þar sem að skammdegið, slyddan, nístingskuldinn og hálkan er að baki og ekkert nema sól og grænt grasið framundan… og rósavín! Sem einlægur aðdáandi rósavína finnst alltaf jafn leiðinlegt hversu fá þeirra ná fótfestu hérlendis en líklega tengist það eitthvað hinu íslenska loftslagi þar sem að sól og allavega tveggja stafa hitatala er líklegri til að kveikja í löngun á rósavínsglasi en norðan stinningskaldi og 6 gráður. En ég mun halda áfram að tala upp góð rósavín og vonandi mun það einn daginn skila sér, þangað til verð ég bara að njóta þess þegar sjaldséðar perlur dúkka upp í hillum vínbúðanna.

Hér er einmitt ein slík perla. Blanda af Grenache, Cinsault og Syrah og kemur ávöxturinn frá Sainte-Victoire vínræktarsvæðinu í Provence sem liggur sunnan við Sainte-Victoire fjall. Svæðið er þekkt fyrir að framleiða fínleg og fersk rósavín úr einmitt þessum þrúgum og hefur hinn svokallaði Mistral vindur mikinn þátt í að gera þau eins og þau eru.

Það er ekki oft sem ég er gjörsamlega starstruck við að þefa að vínum en það gerðist við smökkun á þessu víni. Ég varð næstum því feiminn við að finna ilminn, svo glæsilegur var hann. Opinn og gríðarlega ávaxtaríkur ilmur sem minnir eiginlega mest á sætan ávaxtakokteil. Jarðarber, ástaraldin, lychi, hindber, hunangsmelóna og perubrjóstsykur. Í munni er það aftur á móti öllu þurrara og ferskara þó svo að ilmurinn gefi allt annað til kynna. Ávöxturinn er fínlegri með melónutónum og sítrus í fararbroddi sem tónar vel við jafnvægið í vininu. Hefði örugglega smellpassað með risarækju taco-ið sem ég var með um daginn en þetta steinliggur líka með léttum laxréttum t.d.

Okkar álit: Virkilega skemmtilegt og eitt af ilmríkari rósavínum sem ég hef smakkað lengi. Mæli með að fólk næli sér í eina flösku ef ekki fleiri. Algjört nammi!

Verð 3.498 kr

You might be interested in …

Leave a Reply