Bodvar No. 5 Rosé 2019 **** (86)

Enn skín sólin og þá er ekki úr vegi að henda inn nýju rósavíni. Ég fjallaði um Bodvar No.7 hér fyrir helgi og lofaði því hástert enda frábært rósavín sem allir ætti að smakka en í dag tökum við Bodvar No.5 fyrir.

Ávöxturinn kemur frá sama svæði og sjöan (Sainte-Victoire í Provence) en þrúgusamsetningin örlítið önnur þó svo að Grenache og Cinsault leiki lykilhlutverk líkt og í sjöunni. Hins vegar er Syrah skipt út fyrir hina lítt þekktu hvítvínsþrúgu Rolle, sem einhverjir ættu mögulega að þekkja betur undir nafninu Vermentino á Ítalíu þar sem hún gefur af sér létt og fersk hvítvín.

Ilmurinn opinn og ferskur með slatta af steinefnum, sítrónu, greip, blómum og vott af ferskjum. Áhugaverður ilmur sem kemur örlítið á óvart. Létt og ferskt í munni með fínlegan ávöxt sem einkennist af sítrus og ferskjum í bland við létta skál af hindberjum. Eftirbragðið er svo sæmilega langt og hangir það merkilega nokk á steinefnum frekar en ávextinum.

Okkar álit: Létt og frísklegt rósavín sem gæti hæglega blekkt vanan vínsmakkara og þóst vera hvítvín.

Verð 3.599 kr

You might be interested in …

Leave a Reply