Viberti Barolo Buon Padre 2017 **** 1/2 (90)

Það er búinn að vera Barolo púki í mér síðustu daga, sem er einn af betri púkunum sem hlaupa í mig, og er von á nokkrum Barolo dómum í kjölfarið. Í dag er það Viberti Giovanni Buon Padre Barolo sem rataði í smakk til mín fyrir nokkru síðan og hafa einhverjir vonandi séð umfjöllunina um hið kraftmikla og skemmtilega Barbera d’Alba sem kemur frá sömu víngerð. Þeir sem misstu af henni geta séð hana hér. Hér erum við hins vegar með vínið sem var upphafið af Viberti víngerðinni, fyrsta vínið sem var framleitt undir nafninu Viberti árið 1923.

Þetta Barolo er að sjálfsögðu gert úr 100% Nebbiolo eins og lög og reglur segja til um og kemur ávöxturinn frá 10 mismunandi vínekrum víngerðarinnar innan Barolo svæðisins: Bricco delle Viole, San Pietro, San Ponzio, La Volta, Fossati, Albarella, Terlo, Ravera, Perno og Monvigliero sem eru allar bestu ekrur víngerðarinnar. Ávöxturinn er svo gerjaður í sitt hvoru lagi og fær vínin frá hverri ekru að þroskast í 36-40 mánuði á frönskum og slóvenskum eikartunnum áður en það er svo blandað saman til að ná því jafnvægi sem Barolo krefst. Eftir þetta fær vínið svo að hvíla í hátt í hálft ár í flöskunni áður en það er sett á markað. Þeir sem eru naskir stærðfræðingar sjá það að þetta vín er vægast sagt í yngri kantinum, markaðslega séð, þó svo að það sé að detta í fjögurra ára afmæli í haust.

2017 árgangurinn var mörgum framleiðendum erfiður þar sem að frost og þurrkar höfðu mikil áhrif á afköst vínviðarins. Einnig var sumarið ansi heitt sem gerði það að verkum að ávöxturinn þroskaðist mun hraðar en venjulega og getur það haft töluverð áhrif á bragðprófíl vínsins.

Ilmurinn er merkilega opinn fyrir svona ungann Barolo. Ferskur og fínlegur ávöxtur í byrjun og þróast ávöxturinn aðeins í þroskaðri tóna og jafnvel sultaða með döðlum, fíkjum og plómum sem dúkka upp með blómlegan angann í bakgrunni. Í munni líkist það þó meira Barolo og er þessi fínlegi en þó kraftmikli ávöxtur til staðar ásamt kröftugum tannínum sem öskra “þú opnaðir flöskuna of snemma”. Sýran er vel til staðar og er víninu gríðarlega mikilvæg svo það verði og þunglamalegt og erfitt. Mundi mæla með góðri umhellingu eða allavega 3-4 ára geymslu fyrir þolinmóða, klárt mál að það mun gera vínið enn betra.

Okkar álit: Vel gert Barolo miðað við erfiðan árgang. Þroskaður ávöxtur, fínlegt, kraftmikið og glæsileg tannín. Geymið í nokkur ár.

Verð 6.942 kr

You might be interested in …

Leave a Reply