Ég hef komist að því í gegnum vínsmökkin mín að ég er því miður ekki laus við fordóma, en sem betur fer takmarkast þessir fordómar við vín. Þetta kom glögglega í ljós þegar ég fékk í hendurnar þessa ágætu flösku af lambrusco. Ég hugsaði um leið að hér væri ég að fara að smakka eitthvað sætt, létt freyðandi lambrusco sull eins og var af óskiljanlegum ástæðum gríðarlega vinsælt hér fyrir alls ekki svo löngu og viðurkenni fúslega að ég dróg það svolítið smakka það. Ég skal líka vera fyrstur til að viðurkenna að ég hefði ekki getað haft meira rangt fyrir mér.
Þetta frábæra Lambrusco er kemur frá hinni rótgrónu Cleto Ciarli víngerð sem var stofnuð árið 1860 í Modena. Víngerðin hefur gengið í gegnum ýmislegt á þessum 160 árum en hafa á seinni árutugum lagt meiri áherslu á gæði í þeim tilgangi að koma Lambrusco úr forarpyttum fordómafullra manna eins og mig. Þrúgan er Lambrusco di Sorbara, oft bara kölluð Sorbara, sem er með sitt eigið upprunasvæði (DOC) norðan við Modena.
Liturinn er ljósari en hiðhefðbundna Lambrusco og er nær rósavíni, fallega bleikt og létt freyðandi. Ilmurinn er opinn og svo aðlaðandi að það er erfitt að ná nefinu upp úr glasinu. Jarðarber og rósir eru í algjöru lykilhlutverki en einnig er að finna fersk hindbera og jafnvel vott af rifsberjum. Í munni er það létt og frekar þurrt með ferskum rauðum berjum eins og t.d. hindberjum, jarðarberjum og vel þroskuðum rifsberjum í aðalhlutverki en bakvið tjöldin eru grösugir tónar, sedrusviður og kryddjurtir að styðja við ávöxtinn. Glettilega margslungið í munni sem kemur á óvart miðað við einfaldann ilminn. Klárlega eitt af sumarlegri vínum sem við höfum smakkað lengi, get ekki beðið eftir að sitja á svölunum á góðum degi með glas af þessu.
Okkar álit: Einfalt og yndislegt vín sem á eftir að heilla marga. Tilvalið á pallinum í góða verðinu.
Verð 3.275 kr