Villa Conchi Blush Brut **** (88)

Hér erum við með annað vín sem braut niður fyrirfram ákveðnar hugmyndir mínar (fordóma) um ákveðna týpu af vínum og í þetta sinn snérust þær um vín sem bera orðið blush. Þetta hugtak var ofnotað hér í byrjun aldar og oftast um rósavín sem voru í sætari kantinum, sem er ekki minn tebolli. Villa Conchi eru þó blessunarlega ekki mikið í því að framleiða óþarflega sæt Cava, þvert á móti.

Þetta vín er gert úr þrúgunni Trepat og er ekki algengt að sjá Cava framleitt einungis úr þeirri þrúgu þó vissulega sé það leyfilegt. Að sögn Joan Rabada, víngerðarmanns Villa Conchi, hentar Trepat sérstaklega vel til framleiðslu rósavína þar sem að berin eru í stærra lagi og hýðið þar af leiðandi hlutfallslega minna. Þetta gerir þeim kleift að ná nægilega miklum lit úr berjunum við pressun og sleppa þeir því við að láta hýðið liggja á safanum (maceration) og er því engin tannín í víninu, sem gerir það enn mýkra og ferskara. Vínið fær svo að liggja í dvala í 12 mánuði á flöskum eins og venjan er áður en þar er loks sett á markað.

Vínið er fallega fölbleikt og eru loftbólurnar nokkuð fínlegar. Ilmurinn er frekar einfaldur og eru rauð ber eins og t.d. jarðarber og hindber í aðalhlutverki en einnig er að finna létta sítrustóna á léttum steinefnagrunni þarna líka. Þetta er afar ferskt og ljúft í munni með sömu ljúfu og safaríku rauðu ber og var að finna í nefi sem gerir þetta syndsamlega gott, svo ekki sé meira sagt. Þetta er enn eitt vínið sem ég smakka sem er algjör sumarnegla og krefst þess eiginlega að vera drukkið utandyra ef aðstæður leyfa.

Okkar álit: Einfalt, ljúffengt og sjarmerandi. Enn og aftur sjáum við að fegurðin getur vel legið í einfaldleikanum.

Verð 2.390

You might be interested in …

Leave a Reply