Ég virðist ekki fá nóg af rósavínum og sérstaklega ekki rósavínum frá Provence, sem eru að mínu mati þau bestu sem hægt er að fá. Hér erum með enn eitt sem Provencevínið sem ratar til mín og langar mig alltaf jafn mikið að vera staddur í í Suður-Frakklandi þegar ég opna flösku þaðan. En ég læt stofuna í Kópavoginum duga í bili.
Þetta vín er nokkurn veginn hefðbundin blanda af 43% Grenache Noir, 40% Syrah, 9% Carignan, 5% Cinsault og 3% Mourvèdre og kemur ávöxturinn frá nokkrum mismunandi vínekrum í Provence.
Ilmurinn er opinn og mjög ávaxtaríkur með dass af hindberjum, ferskjum, apríkósum, perubrjóstsykur og banana í fyrstu bylgju. Enn eitt rósavínið sem fer langa leið með að heilla mig upp úr skónum með lyktinni einni. Það er svo þurrt og ferskt í munni með hressandi sýru og boddí í léttari kantinum. Þetta er samt alvörugefið vín og á alveg jafn mikið heima við matarborðið ásamt grillaðiri bleikju t.d. sem og eitt og sér úti á pallinum.
Okkar álit: Dæmigert Provence rósavín með sinn miðjarðarhafs sjarma. Frábær og á sama tíma fínlegur ávöxtur.
Verð 2.699 kr