Nú hefur áhugi landsmanna á Pinot Noir, og þá sérstaklega Pinot Noir frá Búrgúndí, aldrei verið meiri og hefur það orðið til þess að innflytjendur hafa lagt meiri áherslu á þann flokk sem er hið besta mál fyrir okkur neytendur. Sjaldan, ef einhvern tímann, hefur úrval Búrgúndarvína verið betra í hillum vínbúðanna og hafa þar að auki aðrir aðilar opnað dyrnar sínar að glæsilegu úrvali þessara vína. Við fögnum alltaf auknu úrvali. Hér er á ferðinni svokallað “entry level” Pinot Noir frá Búrgúndí frá rótgrónum framleiðanda sem staðsettur er steinsnar frá Beaune í hjarta vínræktarhéraðsins.
Ilmurinn er opinn og bjartur og einkennist hann af rauðum ávöxtum á borð við hindber, súr kirsuber og rifsber en einnig er dass af kanil og vott af eikarmeðferð þarna í bakgrunninnum. Þetta er frekar létt og einfalt í nefi en á sama tíma mjög dæmigert fyrir Pinot Noir. Það er létt og bjart yfirlitum í munni með góðan ávöxt, líflega sýru og fínleg en þétt tannín sem gefur víninu meiri byggingu. Nokuð langt eftirbragð sem hangir á ávextinum og vott af grænum tónum sem dregur þetta aðeins niður. Mundi passa vel með einföldum pizzum, léttum kjötréttum eða bara einfaldlega eitt og sér.
Okkar álit: Einfalt, vel gert og ljúft “entry level” Pinot Noir sem, fyrir þennan pening, eru nokkuð fín kaup.
Verð 2.799