Það er alveg nauðsynlegt að kynnast betur þrúgunum sem eru óalgengastar í þeim vínum sem okkar stendur til boða, þótt það væri ekki nema til að leyfa sér að breyta stundum til. Margar þeirra eru kannski lítt aðgengilegar því þær eru afar staðbundnar og vín úr þeim mun aldrei standast framlegðskröfur Vínbúðanna. En sumar þrúgur eru það algengar að það er engin afsökun að leiða þær hjá sér. Garnacha er ein þeirra.
Garnacha er upprunnin á Spáni og þekkt þar undir nafninu garnacha tinto, einnig til sem hvítvínsþrúga undir nafninu garnacha blanca, og er útbreiddasta þrúgan þar í landi, á undan tempranillo. Hún er kölluð (skrifuð) „garnatxa“ í Kataloníu og Baskalandi, sem er borið eins fram og garnacha. Hún er algengust í norður- og austurhluta Spánar, ein af fáum þrúgum leyfðar í Rioja til dæmis, algengari í Rioja Baja (mildara loftslag) en nánast ekkert notuð í Rioja Alta og Alevesa (hærra og svalara loftslag). Hún er einnig algeng í Navarra, í Kataloníu, Penedes og víðar og á austurströnd Spánar í kringum Valencia og Murcia. Hún er oftast notuð í rauð- og rósavín í bland með öðrum þrúgum eins og tempranillo, graziano eða alþjóðlegum þrúgum – en verðmætust er hún í Priorat í suðurhluta Kataloníu, þar á hún oftast samleið með cariñena af gömlum vínviði. Sjálf getur hún orðið yfir 100 ára og vínin úr henni þá kröftugri og þéttari.
Sögulega hefur garnacha dreifst frá Spáni til Frakklands með Miðjarðarhafsströndinni á tímum Rómverja, en er einnig á stöðum þar sem ekki er eins augljóst hvernig hún hefur fest rætur. Hún er nefnilega mjög algeng á Sardiníu, þá undir nafni „cannonnau“ og barst þangað þegar eyjan var í eigu konunga af Aragon á 15. öld.
Hún er ræktuð þar sem runni, en ekki í röðum (og er ekki bundinn við vír) og þrúgan er notuð ein en ekki í blöndu. Vínin voru, þar til fyrir 15 árum, tannínmeiri og grófari en á Spáni en eru í dag bestu dæmin um hrein garnacha-vín, jafnt rauðvín sem rósavín. Þau hafa mikinn sjarma og karakter.
Franska „grenache“ er ræktuð eins og á Spáni samkvæmt „guyot“- formi þar sem vínviðurinn er látinn móta einn eða tvo arma út frá stofninum, er mikið notuð í Roussillon og Languedoc, er uppistaðan í Roussillon-vínunum en þekktust fyrir að vera einnig uppistaðan í Côtes du Rhône og oft Châteauneuf du Pape svo og Rosé de Provence-vínum. Í Rhone-dalnum, mætir hún syrah-þrúgunni sem er upprunnin frá norðurhluta Rhone-dalsins og myndast hefur nánast fullkomin blanda í miklu jafnvægi. Dæmigerð blanda er 60% grenache á móti 40% syrah og vínið verður í einstöku súrefnisjafnvægi. Þetta er vín með góðum ávexti (skógarber, dökk og rauð), mátulega sýruríkt og tannískt.