Klippa vínvið

Að klippa vínviðinn þegar hann vaknar að vori er mikil list og hefur alltaf verið. Vínviðurinn er klifurjurt þannig að hægt er að stjórna og ákveða hvert hann fer – eða fer ekki. Í flestum tilfellum er hann klipptur niður í 1 til 1,5 m frá jörðu, hver planta stendur sjálfstæð – en það er ekki alls staðar og heldur ekki alls staðar sem ástæðan fyrir valinu er sú sama.

Runnar

Elsta aðferðin til að klippa vínviðinn er líklega sú að móta runna þar sem laufið myndar skjól fyrir vínberjaklasana. Hún er mest notuð þar sem sólin á til að brenna þrúgurnar og er algeng á Suður-Spáni (palomino fino í Jere), á Lanzarote og Santorini þar sem plönturnar þurfa að fá skjól fyrir vindinum, einnig á stöðum þar sem engin vélvæðing hefur verið möguleg.

Pergola

Þessi aðferð er nokkuð algeng og útilokar að mestu vélvæðingu. Vínviðurinn er látinn vaxa og er leiddur á vírum sem eru í tveggja m hæð að jafnaði, þannig að klasarnir hanga og menn teygja sig í þá við tínslu. Ástæðan er sú sama hér, að verja klasana fyrir of miklum hita en einnig til að nota rými sem verður til undir til að rækta þegar land þrýtur. Þannig er það til dæmis á Madeira, en pergola-aðferðin finnst aðallega á Spáni í Galisíu og á Norður-Ítalíu þar sem hún ver þrúgur fyrir regni og raka í jarðveginum.

Guyot – double og simple

Þetta er í dag algengasta klippingaraðferðin, kennd við Frakka, og nefnist Guyot. Hér eru tvær greinar (Guyot double), eða einungis ein (Guyot simple), út frá stofninum látnar vaxa stutt og bera svo ákveðinn fjölda bruma (6 til 8). Kraftur safans er þannig beislaður til að næra sem best og sem mest ákveðinn fjölda klasa, en sjálfur vínviðurinn getur verið í mismunandi hæð eftir því hvernig jarðvegurinn er. Sprotar úr brumunum eru svo bundnir við vír til að halda þeim á réttum stað. Þessi aðferð leyfir notkun á vélarafli fyrir jarðvinnu og uppskeru.

Aðrar aðferðir

Gobelet: Í staðinn fyrir tvo arma, eru fleiri skildir eftir sem mynda eins konar ílát (gobelet).
Cordon Royat: Svipað og gobelet en færri armar.
Frábrugðið: Í Portúgal var vínviðurinn látinn klifra með hávöxnum limgerðum til að taka sem minnst rými á ekrunum (Vinho Verde svæðið)

You might be interested in …

Leave a Reply