Shiraz og Syrah

Oft er spurt um það, hver sé munurinn á millli syrah og shiraz, hvor þrúgan sé „ekta“ og hvers vegna heitin séu lík en samt mismunandi. Fyrir 20 árum, þegar shiraz-þrúga frá Ástralíu kom af alvöru fram á sjónarsviðið, spruttu upp alls konar sögur sem áttu sínar rætur að rekja í mýtum sem DNArannsóknir voru fljótar að þagga niður: þrúgan hafi verið flutt til Evrópu frá Miðausturlöndum á tímum krossfaranna, hún væri upprunin í Íran (vegna þess að borg þar í landi heitir jú Shiraz). En raunveruleikinn er ekki eins dularfullur. Syrah-þrúgan er upprunin í Rhône-dalnum í Frakklandi og á ættir að rekja til Mondeuse blanche sem er enn til í Ölpunum og Dureza frá sama svæði sem er nánast horfin í dag. Og shiraz og syrah er ein og sama þrúgan – sem á ekkert skylt við þrúguna petite sirah sem finnst aðallega í Kaliforníu.

Við vitum samt að sama þrúga getur gefið mismunandi vín eftir því sem „terroir“ mótar hana, það er að segja jarðvegurinn, loftslagið, staðsetningin – og eftir því sem víngerðarmaðurinn ákveður að gera, til dæmis tína berin snemma eða fullþroska, geyma á eik eða ekki og ýmislegt annað. Þannig að shiraz-vín frá Ástralíu getur verið nokkuð langt frá syrah-víni frá Rhône eða annars staðar í Evrópu. Segja má að þrúgan sé fjölhæf, en hvernig á að þekkja þessi mismunandi vín?


Syrah kom til Ástralíu í 1830 í formi græðlinga, eins og margar aðrar tegundir af vínviði sem voru fluttar þegar menn sáu möguleika fyrir vínrækt í landinu – á svipuðum tíma og mesti innflutningur á þessum sömu græðlingum átti sér stað frá Evrópu til Kaliforníu. Ekki er vitað af hverju nafnið breyttist í „shiraz“ og meðferð
tungumálsins aðallega kennt um, en shiraz var ekki strax vinsælasta þrúgan í Ástralíu, það var önnur sem var kölluð „mataro“ og er ekkert annað en mourvèdre frá Spáni og Rhônedalnum, líka kölluð monastrell. Sennilega
hefur þurft þennan tíma og reynsluna til að ná árangri sem við þekkjum í dag með shiraz-þrúgunni, sem er, ef svo má segja, fánaberi Ástralíu.

Þótt shiraz og syrah sé ein og sama þrúgan, eru að sjálfsögðu séreinkenni sem fylgir þeim. Vínin úr ástralskri shiraz-þrúgu eru yfirleitt dekkri, kryddaðri (svartur pipar), þéttari, með mentólkeim og hátt áfengisinnihald þar sem hún er mjög sykurrík. En vínin geta líka verið ljósari og hversdagsleg svo fjölhæf er þrúgan. Frá Rhône-dalnum (þá erum við að tala um Norður-Rhône, Hermitage, Cornas, Crozes Hermitage, Côte Rôtie) kemur blómaangan í staðinn fyrir mentól, hvítur pipar í staðinn fyrir sterkari svartan pipar. Vínin verða alltaf rík í áfengi og þétt eftir því sem víngerðarmaðurinn velur, sama gildir um geymslu á tunnu eða ekki því þrúgan þolir báðar aðferðir afar vel.