Marques de Casa Concha þarf ekkert að kynna enda með vinsælli vínframleiðendum frá Chile hjá á landi í mörg ár. Hins vegar er alveg þess virði að staldra við og kynna sér betur uppruna og aðstæður þessa víns því það varpar ansi góðu ljósi á uppbyggingu vínsins og persónueinkenni þess.
Ávöxturinn kemur frá Quebreda Seca vínekru víngerðarinnar sem er staðsett í Límarí dalnum, sem er eitt af nyrstu vínræktarsvæðum landsins. Vínekran er staðsett í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli og er ekki nema 22km í Kyrrahafið. Þetta gerir það að verkum að loftslagið er mun svalara en innar í landinu sem varðveitir ferskleika ávaxtarins en á sama tíma er næg sól til að þroska þau vel þannig að vínið fá aðlaðandi ávöxt og góða byggingu. Jarðvegurinn er leirkenndur sem hjálpar enn meira upp á beinabyggingu vínsins. Þetta allt saman endurspeglast vel í þessu skemmtilega víni, sem fær 12 mánaða tunnuþroskun áður en það er sett á flösku
Það er pínu feimið í nefi en opnast við smá þyrlun í glasi. Suðrænir ávextir eins og mangó, papaya, melónur og græn epli eru í aðalhlutverki en skammt undan er smjörkenndur og ristaður eikarkarakter sem er afskaplega vel balanseraður. Ansi ilmríkt og ferskt á sama tíma, sem er afar skemmtilegt. Í munni er það með góða byggingu, nokkuð kraftmikið og í raun meira um sig en nefið gefur til kynna. Eikin og ávöxturinn leikur aðalhlutverk aftur og endar það á löngum hunangskendum ávaxtatónum.
Okkar álit: Nokkuð þétt, eikar og bragðmikið Chardonnay sem er með nægilega sýru til að komast upp með það. Vel gert vín
Verð 3.250 kr
1 Comment