Bassermann-Jordan Pechstein Riesling GG 2019 **** 1/5 (94)

Geheimer Rat Dr. von Bassermann-Jordan víngerðin, héreftir kölluð Basserman-Jordan til mikillar einföldunar, er rótgróin víngerð sem var stofnuð árið 1718 Pierre Jordan og er hún í dag staðsett í bænum Deidesheim. Víngerðin á um 50 hektara af vínvið víðs vegar um héraðið og hlaut hún fyrir nokkrum árum vottun um fyrir lífræna og bíódínamíska ræktun á vínekrum sínum.

Það getur flækst ansi hressilega fyrir fólki að skilja hvernig þýsk vín eru flokkuð enda einstakur frumskógur reglna sem er ekki fyrir hvern sem er að skilja. Fyrir stuttu reyndu þó þýskir framleiðendur að einfalda þetta aðeins með nýjum skilgreiningum, sem eru reyndar ekki hluti af viðurkenndum reglugerðum, og til að gera mjög langa útskýringu frekar stutta þá er GG (Grosses Gewächs) samlíking við Grand Cru franskra vínframleiðenda og merkir að vínið komi frá bestu vínekrum svæðisins. Þetta vín kemur frá Pechstein vínekrunni, sem dregur nafn sitt af svörtum blágrýtiskenndum jarðveg sínum, og telur ekran samtals um 15 hektara sem Bassermann-Jordan á ekki nema um 0,75 hektara af.

Vínið er fallega fölgyllt á litinn með sæmilega opinn ilm en það er greinilegt að það er margt meira þarna á bakvið. Eftir smá öndun í glasi kemur ávöxturinn fram og maður min lifandi hvað hann er geggjaður. Víbrandi ferskir ávextir sem eru svo fullkomnlega þroskaðir að maður fær vatn í munninn. Ferskja, apríkósa, steinefni, hunangsmelóna, sítróna, mandarína og mangó er það helsta sem stekkur á mann og er jafnvægið milli ávaxtanna magnað. Ómótstæðilegur ilmur sem er aðvelt að týna sér í. Það er svo þurrt og ferskt í munni en aftur er ávöxtur þess eðlis að vínið er í fullkomnu jafnvægi. Geggjuð bygging og það er svo greinilegt að þarna á fullt eftir að gerast í flöskunni næstu 10-30 árin, ekki frá því að vínið muni skríða í 5 stjörnur með smá aldri. Drekkið með feitum fiskréttum sem eru ekki of íburðamiklir.

Okkar álit: Einstakt Riesling sem á bara eftir að verða betra með smá geymslu. Skyldukaup!

Verð: 6.698 kr

You might be interested in …

Leave a Reply