Bestheim víngerðin er í raun samlagsvíngerð (cooperative) sem varð til þegar 5 famleiðendur tóku sig til og sameinuðust í eina. Víngerðin var upphaflega stofnuð árið 1946 og hét þá Cave de Bennwihr, enda staðsett í bænum Bennwihr, og árið 1997 sameinuðust þeir Cave de Westhalten og fannst þeim auðmjúklega liggja beinast við að kalla nýju sameinuðu víngerðina Bestheim. Fleiri slógust í hópinn og í dag þá nær víngerðin yfir um 1400 hektara af víni sem gerir þá ansi stóra leikmenn á þeim markaði.
Ávöxturinn kemur frá hinni rómuðu Grand Cru Schlossberg ekru sem var fyrsta vínekran til að fá Grand Cru viðurkenningu þegar sú vinna hófst árið 1975. Jarðvegurinn er granítkenndur sem getur ýtt undir ferskleikann í víninu og finnst það á þessu víni.
Það er föllímónugult á litinn og hálffeimið í nefi til að byrja með. Eftir smá hnoð og öndun fer það að vakna til lífsins og koma þá fínlegir ávextir á borð við lime, perur, græn epli og greip í ljós í bland við smá steinefni. Afskaplega elegant og fágaður ilmur. Í munni er það svo þurrt og frísklegt en það er beiskja þarna sem mér fannst ekki eiga heima þarna, sem dregur vínið aðeins niður. Ávöxturinn er þó til fyrirmyndar og er hann örlítið búttaðari en í nefi og endar vínið á löngu eftirbragði sem hangir á hunagstónum. Mundi plumma sig vel með grillaðri bleikju í appelsínu og kóríandermarineringu.
Okkar álit: Fínlegt og fágað en vantar aðeins upp á jafnvægi.
Verð: 3.785 kr