Domaine Weinbach Cuvée Theo Riesling **** 1/2 (92)

Domaine Weinbach á sér langa og ríka sögu. Víngerðin var stofnuð árið 1612 af munkum Capuchin reglunnar og ber hluti vínekra víngerðarinnar enn nafn munkana – Clos des Capucins. Það er svo árið 1898 sem bræður úr Faller fjölskyldunni eignast víngerðina og láta það í hendur sonar annars þeirra, Théo Faller, að reka víngerðina. Í dag er það Catherine dóttir Théo, ásamt sonum hennar Eddy og Théo, sem leiða víngerðina og hafa komið henni í fremstu röð í Alsace þó víðar væri leitað. Víngerðin hefur unnið eftir bíódínamískum fræðum og fengu vottun þess efnis árið 2005.

Ávöxturinn sem notaður er í þetta vín kemur einmitt úr ekru víngerðarinnar innan Clos de Capucins þar sem einstakt terroir ekrunnar gerir Catherine og sonum hennar kleift að rækta Rielsing, Gewürztraminer, Pinot Blanc og Pinot Noir á sama stað með mögnuðum árangri.

Fallega ljósgylltur litur og opinn ilmur af sítrónu, fínlegum hvítum ávöxtum, melónu, mandarínu, blómum. Afskaplega fínlegur en á sama tíma margslunginn, kröftugur og virkilega vel uppbyggður ilmur. Þurrt, frísklegt og frekar margslungið í munni og er ávöxturinn algjörlega “on point” með sítrus, ferskju, perum, vott af rósum og steinefni í bakgrunninum. Jafnvægið er nánast fullkomið og þrátt fyrir áðurnefndan fínleika sem einkennir vínið er dýptin mikil og eftirbragðið ansi langt. Frábært matarvín sem mundi gera góða hluti með feitari fiskréttum með einhvers konar sítrusívafi. Þetta er árgangur sem væri virkilega gaman að heimsækja aftur eftir 10 ár, er ekki frá því að það verði enn betra þá.

Okkar álit: Afar glæsilegt og fínlegt en einnig kröftugt og margslungið vín. Frábær ávöxtur og jafnvægi.

Verð: 5.305 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply