Hugel fjölskyldan hefur verið starfandi síðan um miðja 17. öld í Alsace og hefur verið burðarstólpi í vínframleiðslu héraðsins alla tíð síðan og má til dæmis nefna stóran þátt Jean Hugel í að endurvekja hin stórkostlegu sætvín héraðsins, Vendange Tardive og Selection de Grains Nobles. Víngerðin er staðsett í hinu sjarmerandi Riquewihr þorpi og á fjölskyldan um 25 hektara af vínvið í kringum þorpið með yfir helming þeirra hektara innan skilgreindra Grand Cru vínekra. Ávöxturinn sem notaður er í Grossi Laüe kemur frá Schoenenbgurg Grand Cru ekrunni sem liggur norðan við Riquewihr þar sem Riesling þrífst einstaklega vel. Hugel á þar 5 hektara sem er skipt í 12 einingar og er hver eining meðhöndluð í sitt hvoru lagi til að varðveita persónuleika hverrar einingar fyrir sig þar sem jarðvegur ekrunnar er gríðarlega fjölbreyttur.
Liturinn er fallega gylltur og er vínið með opinn og afar gjafmildann ilm af brjálæðislega safaríkum ávöxtum í bland við þroskaða Rielsing tóna. Ferskjur, síturs, vel þroskað mangó, melóna, dass af engifer, hvít blóm og pistasíur í forgrunni og á bakvið lúrir hin dæmigerði Riesling steinolíukarakter sem heldur þessu öllu svo fallega saman. Hellings botrytis karakter í ilmnum sem gerir þetta enn margslungnara og heillandi. Það er svo nokkuð þétt í munni og virkar næstum því sætt þar sem að ávöxturinn er svo ótrúlega þroskaður og djúsí en í raunveruleikanum er þetta frekar þurrt samkvæmt skilgreiningunni. Það er bragðmikið en samt ótrúlega fágað þökk sé frábæru jafnvægi og er ávöxturinn áfram stórkostlegur eins og var í nefi. Eftirbragðið ef langt og hangir það á unaðslegum ávextinum. Ef þið viljið smakka hágæða Riesling frá frábærum framleiðanda sem er kominn með smá þroska í sig þá gerast þau varla betri en þetta. Þetta er einstaklega matarvænt vín sem getur passað með ótrúlega fjölbreyttum mat en þetta mun steinliggja með bragðmeiri fiskréttum eða asískum risarækjum. Getið líka geymt það í 10-15 ár í viðbót.
Okkar álit: Einstakt vín. Ávöxtur to die for, margslunginn karakter og frábær bygging. Algjör negla svo ekki sé meira sagt!
Verð: 7.990 kr