Riesling

Riesling þrúgan er ein af þeim stóru og jafnvel ein af stórkostlegustu þrúgum sem til eru en þrátt fyrir það er hún ekkert endilega sú vinsælasta. Spurðu hvaða vínnörd sem er hvaða 3 hvítvínsþrúgur eru í uppáhaldi hjá honum/henni og það eru allar líkur á því að Riesling komist ofarlega á þann lista. Þegar leikmaðurinn er spurður að sömu spurningu er hins vegar ólíklegt hún verði fyrir valinu. Er Riesling vín bara eitthvað vel geymt leyndarmál innan vínbransans sem við nöllarnir viljum eiga fyrir okkur eða er það eitthvað annað sem veldur? Skoðum aðeins þrúguna sem margir kalla drottningu þrúganna.

Saga Reisling

Sögulegar heimildir benda til þess að Riesling þrúgan sé uppruninn í Rheingau héraðinu. Þrúgan er fyrst nefnd á nafn í reikningi frá víngerð í Rüsselsheim fyrir 6 Riesling plöntum til John IV greifa af Katzenelnbogen frá árinu 1435 þar er sem hún er reyndar kölluð Riesslingen en fær svo nýtt nafn, Riesling, árið 1552 í verkum Hieronymus Bock. Það er svo ekki fyrr en 100 árum seinna sem vinsældir þrúgunnar fara að vaxa þegar 30 ára stríðinu lýkur og Frakkland ná yfirráðum yfir Alsace héraði. Þar ákváðu Frakkar að stór hluti vínekranna sem eyðilögðust í stríðinu skyldi gróðursettur á ný með Riesling og í kjölfarið fóru fleiri vínræktarhéruð að gera slíkt hið sama. Rieslingvín fóru að vekja athygli fyrir gæði sín og árið 1787 gaf kjörfursti Trier það út að öllum “slæmum” vínvið skyldi skipt út fyrir Riesling. Í byrjun 19. aldar nær Riesling svo ákveðnum hápunkti í vinsældum og voru vínin í miklum metum hjá aðalsfólki víðs vegar um Evrópu. Sem dæmi þá voru Riesling vín verðlögð til jafns við dýrustu vín Bordeaux og Bourgogne á þeim tíma og má því segja að þetta hafi verið með vinsælustu vínum þess tíma.

En upprunastaður og leiksvið Rieslingvínanna varð jafnframt valdur að falli þeirra. Eftir fyrri og seinni heimsstyrjöld, sem augljóslega gjöreyddi stórum hluta vínekra þýskalands, fóru vínframleiðendur að framleiða meira magn á kostnað gæða – quantity over quality. Riesling plöntum var skipt út fyrir þrúgutegundir sem þroskast hraðar og gefa meira af sér og voru þær Rielsing plöntur sem eftir voru meðhöndlaðar þannig að þær gáfu meiri ávöxt af sér, á kostnað gæða. Þetta gerði að verkum að hin stórkostlegu, margslungnu og eftirsóttu Rieslingvín þýskalands urðu að hálfgerðu sulli sem oft á tíðum voru frekar óvönduð. Ekki hjálpaði að Riesling þarf langann tíma til að ná fullum þroska og oftar en ekki bauð árgangurinn einfaldlega ekki upp á aðstæður til að þrúgan næði fullum þroska. Þetta varð til þess að hefð skapaðst fyrir því að bæta sykri við, til að ná allavega 8-9% áfengisprósentu, en á sama tíma varð þó nokkur sykur eftir í víninu og gæðin langt frá því að vera ásættanleg. Vinsældirnar hrundu og festist sú ímynd á Rieslingvín að þau væru öll lág í áfengi, sæt og alls ekki eitthvað til að tala um. Það var ekki fyrr en um lok 20. aldar sem endurfæðing Riesling hófst á ný og spilaði hugsjónarmaðurinn og orkusprengjan Ernst Loosen risastórt hlutverk í þeirri vegferð með einskærri þrautseigju og hugsjón um að gera Riesling frábæra aftur og má segja að í dag séu Rieslingvín hægt og rólega að komast aftur á þann stall sem þau voru við upphaf 19. aldar.

Mosel dalurinn í Þýskalandi

Hvernig vín eru framleidd úr Riesling

Riesling er með náttúrulega hátt sýrustig og sem gerir það að verkum að Rieslingvín eru oft á tíðum brakandi fersk og höndla að sama skapi betur smá afgangs sykur en önnur vín. Þetta er yfirleitt gríðarlega fáguð vín með miðlungs eða mikla fyllingu og einstaklega gott jafnvægi milli sýru og sætu. Rieslingvín frá svalari vínræktarsvæðum bjóða yfirleitt upp á sítrónu, lime, greip, perur, græn epli og steinefni en frá hlýrri svæðum er ávöxturinn sætari og meira í líkingu við apríkósur, nektarínur, melónur og ferskjur. Riesling vín eru afar sjaldan eikuð þannig að einkenni þrúgunnar fá að leika aðalhlutverkið og það er álíka sjaldan sem Riesling er blandað saman með öðrum þrúgum. Með árunum og með góðri geymslu geta vínin þróað með sér efnasamband sem heitir TDN sem gerir að verkum að vínið þróar með sér dísilolíu- og steinefnakeim, sem er alls ekki jafn fráhrindandi og það hljómar – þvert á móti.

Hvar þrífst hún best?

Eins og fyrr segir þá benda sögulegar heimildir til þess að hún sé upprunin í Rheingau vínræktarhéraðinu í Þýskalandi, steinsnar vestan við Frankfurt, og það er í þýskalandi sem hún er aðalstjarnan enn þann dag í dag. Þar leggur hún grunninn að mögnuðustu og margslungnustu vínum heims sem eru í algjörum sérflokki hvað geymsluþol varðar. Hún lifir einnig góðu lífi í Alsace héraði í N-Austur Frakklandi þar sem gríðarlega margslunginn jarðvegur héraðsins gerir það að verkum að fjölbreytileikinn er hreint út sagt magnaður og er geymsluþol þeirra vína líka í lengri kantinum, sérstaklega vínin frá bestu ekrunum – svokölluð Grand Cru vín.

Í eðli sínu þrífst Riesling best í svalari vínræktarsvæðum eins og t.d. Mosel, Rheingau og Alsace þar sem að berin fá langan tíma til að þroskast og þróa með sér margslungin karakter. Þó svo að hitinn á þessum svæðum geti farið hátt á daginn þá lækkar hitinn töluvert meira en á heitari svæðum á kvöldin sem hjálpar þrúgunni að viðhalda sýrustiginu og þar af leiðandi ferskleika í víninu sem það gefur af sér. Á heitari vínræktarsvæðum leitast framleiðendur við að rækta þrúguna í meiri hæð til að viðhalda ferskleika en meiri sól og hærri hiti gefur vínunum rúnaðri karakter með sætari ávaxtatónum. Þar sem að sýran er þó nokkuð minni vegna hita er þessi vín ekki jafn vænleg til geymslu og hin Þýsku eða Frönsku.

Matarparanir

Þar sem að Rieslingvín geta verið svo ofboðslega fjölbreytt þá þarf aðeins að flokka þetta niður. Þurr og sýrurík Riesling vín geta passað einstaklega vel með bleikum fisk eins og til dæmis lax eða bleikju. Graflax, sushi eða grilluð bleikja með smá sítrónuskvettu eru frábærir kostir. Rækjur eru líka mjög góð pörun en það þarf augljóslega að passa að marineringin (ef einhver) yfirgnæfi ekki vínið. Sætari Riesling vín eins og Kabinett eða Spätlese geta verið frábær með sterkt krydduðum mat og þá sérstaklega vel með indverskum en einnig geta vín frá Ástralíu t.d. hentað vel með þannig réttum. Kjúklingaréttir með rjómakenndun sósum geta líka verið frábær félagsskapur en aftur þarf að passa að sósan yfirgnæfi ekki vínið. Síðast en ekki síst er ágætt að minna á geitaostinn sem getur passað fullkomnlega með ungu og fersku Riesling víni.

11 Riesling sem þú verður að prófa

You might be interested in …

Leave a ReplyCancel reply

Discover more from Vínsíðurnar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading