Peter Lehmann Portrait Riesling 2017 **** (86)

Peter Lehmann þarf ekkert að kynna, það höfum við svosem sagt áður, en það eru sennilega ekkert margir sem hafa farið út fyrir hinn þægilega Chardonnay ramma og prófað þetta stórskemmtilega Riesling. Ávöxturinn kemur frá Eden Valley sem er undirhérað Barossa í Suður Ástralíu. Dalurinn er einn af svalari vínræktarsvæðum landsins sem, eins og glöggir lesendur Vínsíðanna sem lásu greinina um Riesling, hentar Riesling afskaplega vel. Þrúgan hefur verið ræktuð þar nokkurn veginn síðan vínrækt hófst þar og koma mörg af skemmtilegustu og vönduðustu Rieslingvín Ástralíu þaðan.

Þetta tiltekna eintak er fölgyllt á litinn með ansi opinn og frísklegann ilm af steinefnum, sítrónu, lime, og dass af steinolíu í bakgrunninum. Virkilega víbrandi og hressandi ilmur. Í munni er það meðalbragðmikið, skraufþurrt og víbrandi ferskt með glás af grænum eplum, greip, lime og steinefni í fararbroddi. Það er nokkuð langt og í góðu jafnvægi, þó svo að það halli meira á sýruna í þessu víni. Mundi henta vel með fínlegri fiskréttum þar sem sítrus koma eitthvað við sögu.

Okkar álit: Ferskt, víbrandi þurrt og nokkuð stílhreint. Vel gert

Verð: 2.599 kr

You might be interested in …

Leave a Reply