El Enemigo: Leitin að hinu fullkomna terroir

El Enemigo þýðir bókstaflega óvinurinn og er nafnið tilvísun í innri baráttu sem allir eiga við sjálfa sig þegar er verið að reyna að stíga út fyrir þægindarammann til að ná því besta út úr manni. Þar ertu þinn eigin óvinur og eru vínin virðingavottur til þeirra sem taka þann slag og móta sinn eiginn mann, sem er mjög djúpt.

Flagskip víngerðarinnar – Gran Enemigo Single Vineyard Gualtallary

Víngerðin er nokkuð ung að árum, stofnuð árið 2009, en þrátt fyrir það eru eigendur hennar, Alejandro og Adrianna, allt annað en reynslulitlir. Alejandro Virgil er jarðvegssérfræðingur og víngerðarmaður og hefur hann starfað sem yfirvíngerðarmaður hjá Bodegas Catena Zapata í rúm 17 ár og hefur verið lykilmaður í velgengni Catena síðan hann byrjaði. Það virðist vera alveg sama hvað hann kemur nálægt, það virðist allt verða að einhverju einstöku. Hinn helmingurinn er svo engin önnur en Adrianna Catena en hún er eins og nafnið gefur glögglega til kynna yngsta dóttir hins víðfræga Nicolás Catena, sem af mörgum er talinn einn allra mikilvægasti einstaklingur í sögu argentískra vína, hálfgerður guðfaðir argentískra vína. Það er engar ýkjur þegar honum er gefið að hafa komið argentískum vínum á kortið sem hágæða vín en einnig hefur óbilandi trú og rannsóknir hans á Malbec endurvakið dýrðarljóma þrúgunnar á alþjóðlegum skala.

Ávöxturinn sem notaður er í vínin kemur frá vínekrum sem liggja sunnan við Mendoza borg og tilheyra hinum margrómaða Uco dal þar sem mörg af bestu vínum Argentínu fæðast. Þar höfðu Alejandro og Adrianna lagt mikla vinnu í að finna vínekrur með hið fullkomna terroir sem hentar Cabernet Franc, Bonarda og Malbec og liggja sumar þeirra, eins og t.d. hin rómaða Gualtallary, í um 1500m hæð yfir sjávarmáli. Til að setja það í smá samhengi þá er það svipað og að rækta vínvið á toppi Heklu. Í þeirri hæð virðast þau hafa fundið staðsetningar með fullkomið jafnvægi milli sólskinsstunda, sem gera þrúgunum kleift að þroskast, og lægra hitastig að kvöldi, sem varðveitir sýrustigið í þrúgunum. Í víngerðinni er svo stuðst við hefðbundnar aðferðir eins og t.d. steinsteypt „egg“ sem gerjunarílát og stórar endursamsettar tunnur frá ítalíu og er vöruframboðið tvíþætt, annars vegar grunnlínan þar sem áherslan er á þrúgutegundina og hins vegar einnar ekru vín þar sem Cabernet Franc og Bonarda fá að láta ljós sitt skína þar sem að terroir-ið hentar þeim vel á sitt hvorum staðnum.

Gualtallary vínekran fræga

Adrianna hefur látið það eftir sér að eitt af eftirminnilegustu vínum sem hún hefur smakkað er Cheval Blanc frá Saint-Emilion, sem er gert að mestu úr Cabernet Franc og liggja vínekrur kastalans við landamæri Pommerol. Það er því ekki algjör lýgi þegar það er haldið fram að fyrirmyndin sé hið stórkostlega Cheval Blanc en Gualtallary vínekran þykir vera með svipað terroir og í Pommerol í Bordeaux og ákváðu þau því að planta Cabernet Franc þar, sem er einmitt ein af aðal þrúgunum í Pommerol. Það virðist hafa tekist svona ljómandi vel því það var það vín, Gran Enemigo Single Vineyard Gualtallary Cabernet Franc 2013 sem kom þeim á kortið og hefur það vín haldið óslitinni sigurgöngu áfram síðan þá.

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply