Vín í dós, er það eitthvað?

Við höfum verið að sjá vín í dósum detta inn í hillur ÁTVR annað slagið þó það fari lítið fyrir þeim og þær stoppi stutt. Það er greinilegt að víninnflytjendur sjá dósirnar sem óplægðan akur fullan af tækifærum en svo virðist sem við neytendur séum ekki alveg tilbúnir að opna dós af Pinot Noir með kvöldmatnum eða dós af Pinot Grigio yfir einum þætti af Bachelor. Hins vegar er dósavín orðið gríðarlega vinsælt í Bandaríkjunumsem og í Bretlandi og bara tímaspursmál hvenær við Íslendingar stökkvum á vagninn. En hverjir eru kostir og gallar dósavína?

Byrjum á kostunum. Dósir eru umhverfisvænni kostur sem drykkjarílát heldur en glerið þar sem að kolefnisspor dósa er margfalt minna en kolefnisspor glerflaskna og á það sérstaklega við um í okkar tilfelli þar sem að flutningur er stór hluti kolefnissporsins. Ekki nóg með að glerið sé mun þyngra en dósin heldur raðast dósir betur í flutningum og það er minna pláss sem fer til “spillis”. Einnig eru áldósir oftar endurunnar en glerið á heimsvísu þannig að það þarf að vera ansi mikill umhverfispúki í þér til að láta þetta ekki sannfæra þig.

Annar kostur dósanna er að í dósinni er magnið töluvert minna þar sem að hver dós inniheldur 200-375ml af víni. Margir, og er ég þar með talinn, vilja kannski ekki opna heila flösku bara til að fá sér eitt eða tvö glös um kvöldið bara til þess að hella restinni í vaskinn nokkrum dögum seinna og kemur þá dósin sterk inn. Auk þess hentar dósin mun betur í bakpokann ef þú ert að fara á flakk og vilt fá þér lítinn vínsopa með nestinu til dæmis.

Að lokum eru geymslueiginleikar dósa ótvírætt betri en flaskna þar sem að dósin helypir hvorki súrefni né sólarljósi í gegnum sig og gerir þ.a.l. að verkum að innihaldið helst nánast óbreytt, ólíkt í flöskum þar sem korktappi hleypir súrefni inn fyrir og sólarljós kemst auðveldlega í gegnum glerið. Þetta getur auðvitað verið tvíeggja sverð þar sem að mörg vín hafa gott af því að fá smá súrefni til að þroskast.

En snúum okkur nú að ókostum dósavína og er helsti ókostur þeirra einmitt sú staðreynd að dósin hleypir ekki súrefni að víninu til að það þroskist. Þetta gerir það að verkum að enginn vínframleiðandi mundi setja margslungið og fágað vín í dósir, þar sem að slík vín hafa oft gott af smá þroska, en eru nánast í öllum tilfellum að setja ávaxtarík, einföld og aðgengileg vín í dósirnar. Ég tel þetta upp sem ókost en ætti í raun frekar að setja það fram sem væntingastjórnun og megum við aldrei opna dós af víni og eiga von á flugeldasýningu. Það er hins vegar staðreynd að gæði vína í dósum er á uppleið og má til dæmis nefna Underwood línuna sem er fáanleg í vínbúðunum sem gott dæmi.

Ef ég á að taka þetta saman ein nokkur orð þá eru dósavín skárri kostur fyrir umhverfið en vínin eru ekki jafn margslungin og tignarleg þó svo að gæðin séu góð. Persónulega er ég kominn á vagninn og á alltaf nokkrar dósir í kælinum.

You might be interested in …

Leave a Reply