Það kemur fyrir oftar en einu sinni á námskeiðum sem ég er spurður hvaða vín séu í uppáhaldi og eins erfið spurning og þegar ég er búinn að reyna að koma mér frá spurningunni með því að bera fyrir mig árstímasveiflur í smekk og dagsform þá viðurkenni ég að Chianti vín eiga alltaf sérstakann stað í hjartanu mínu. Það er nefnilega einhvern veginn þannig með Chianti vín að þau hafa svo yndilega aðlaðandi karakter og á ég afskaplega erfitt með að finna vín þaðan sem mér finnst beinlínis vont.
Hér erum við með gott dæmi um slíkt vín. Volpaia Chianti Classico 2018 er hefðbundið Chianti Classico og samanstendur vínið af 90% Sangiovese eins og reglur segja til um og 10% Merlot. Vínekrur víngerðarinnar snúa í Suð-Vestur og Suð-Austur og eru þar af leiðandi vel útsettar fyrir sólarstundum en þar sem að þær eru í u.þ.b. 400m hæð þá ná þrúgurnar að varðveita góðum ferskleika.
Vínið er með meðalþéttan rúbínrauðan lit og nokkuð opinn ilm af súrum kirsuberjum, súkkulaði, leður, tóbak, smá súrhey og kryddi. Virkilega dæmigerður Chianti Classico ilmur en þó í léttari kantinum. Í munni er það þurrt og nokkuð sýruríkt með fínlegt tannín. Það er, eins og í nefi, í léttari kantinum og mætti kannski kjöta það aðeins upp en það er hellingur í gangi sem gerir þetta skemmtilegt. Mæli með að drekka aðeins kælt, eða við sirka 16 gráður.
Okkar álit: Létt, ferskt og dæmigert Chianti Classico.
Verð 3.794 kr