Castello di Volpaia Riserva 2018 **** 1/2 (91)

Castello di Volpaia á sér langa sögu sem nær alveg aftur til ársins 1172 þegar þorpið Volpaia var byggt. Þessi fallegi víggirti bær var meðal annars einn af stofnendum Lega del Chianti sem þá voru hernaðarsamtök sem áttu að standa vörð um Chianti héraðið og verjast árásum óvina úr suðri. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og árið 1972 fengu hjónin Giovanna Stianti og Carlo Mascheroni víngerðina ásamt bróðurpartinum af þorpinu í brúðkaupsgjöf, eins og gengur og gerist, sem markar endurupphaf Castello di Volpaia víngerðarinnar. Í dag er það hin kraftmikla Giovanna sem stýrir víngerðinni og hefur hún komið henni á stall með þeim bestu.

Hér erum við með eitt stykki glæsilegt Chianti Classico vín. Gert úr 100% Sangiovese sem vex í rúmlega 500 metra hæð yfir sjávarmáli og gefur hinn einstaki macigno Toscano, jarðvegur víninu lengd, kraft og fínleika sem vínið býr yfir.

Það er rúbínrautt á lit og er ilmurinn nokkuð opinn en það gefur mun meira af sér eftir smá stund í glasi. Kraftmikill ilmur þegar allt kemur í ljós og er að finna klassík krisuber, krydd, leiður, kaffitónum, plómum og milda eikartóna. Glæsilegur og dökkur ilmur sem fær mann til að gleyma sér í smástund. Það er svo nokkuð kraftmikið í munni en á sama tíma milt með góða sýru og frábær tannín sem bráðna í munni. Flott bygging og jafnvægi til fyrirmyndar. Mæli með að umhella og passa vel að bera ekki fram vínið of heitt, 16 gráður væru ákjósanlegastar. Drekkið með góðu lambi.

Okkar álit: Margslungið vín sem er hrikalega vel gert. Getur heillað áhugamanninn og lengri komna á sama tíma. Gott stöff!

Verð 4.941 kr

You might be interested in …

Leave a Reply