El Enemigo Single Vineyard El Mirador Bonarda 2018 **** 1/2 (92)

Land: Argentína
Hérað: Uco Valley
Þrúga: 100% Bonarda
Matarpörun: Prófið með hreindýrasteik um jólin eða nautalund

El Enemigo er hugarfóstur Alejandro Vigil og Adriönnu Catena sem eru þungavigarnöfn í vínheiminum. Hér erum við með frábært vín frá þeim sem er gert úr þrúgunni Bonarda sem stefnir ansi hratt í að verða keppinautur Malbec um að verða fánaberi Argentískra vína. Þetta vín kemur frá lítilli 5 hektara ekru sem ber nafnið El Mirador sem liggur í um 650 metra hæð og er vínviðurinn yfir 40 ára gamall. Berin eru handtýnd og fær vínið að liggja í 15 mánuði á frönskum eikartunnum áður en það er sett í flöskur.

Það er dimmrautt á litinn og býsna þétt í útliti. Ilmurinn er opinn og virkilega ilmríkur með kryddaða tóna í upphafi en með smá öndum kemur dökkur og þéttur og bústinn ávöxtur í ljós. Bláber, krækiber, kryddjurtir, vanilla, dass af hindberjum, lyng og ferskt tóbak í nefi og í lokin koma blómlegar fjólur sem umkringja ilminn eins og gott faðmlag. Í munni er það býsna þétt og milt með tannín sem bráðna á tungunni. Fínn ferskleiki sem heldur víninu uppi og endist vínið nokkuð lengi. Virkilega vandað vín sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Okkar álit: Þétt, dökkt og seiðandi. Frábær ávöxtur, frábær bygging, frábært vín.

Verð u.þ.b. 4.400 kr
Fæst ekki í Vínbúðum en mögulega hjá umboðsaðilanum Uva Vín

You might be interested in …

Leave a Reply