Vietti Barolo Castiglione 2017 **** 1/2 (92)

Land: Ítalía
Hérað: Barolo DOCG
Þrúga: 100% Nebbiolo
Annað: 30 mánuðir á eikartunnur
Matarpörun: Bragðmikið risotto, hreindýr eða hægeldað nautakjöt.

2017 árgangurinn í Barolo var afskaplega krefjandi fyrir framleiðendur þrátt fyrir góða byrjun. Næturfrost rétt eftir páska kom harkalega í bakið á mörgum og hafði sérstaklega skaðleg áhrif á vínekrur sem eru staðsettar í neðri hlíðum héraðsins. Í kjölfarið kom mikill hiti sem varði allt sumarið ásamt mun minni rigning en venjulega og þurftu framleiðendur að vera á tánum til að passa upp á að berin þroskuðust eðlilega og ekki of hratt. Sem betur fer var hiti á kvöldin og nóttunni í eðlilegri kantinum sem hjálpaði berjunum að varðveita ferskleika.

Þetta vín er með léttan og rauðbrúnan lit og nokkuð opinn ilm en það fer ekki milli mála að það er heilmikill ilmur sem á eftir að brjótast út. Dæmigerður Barolo ilmur með kirsuberjum, hindberjum, lyngi, léttum kanil, dass af lakkrís, kamomillu, sveppi og rykugur tónn sem umlykur þetta. Þetta er gríðarlega margslunginn og fínlegur ilmur sem á að öllum líkindum eftir að verða enn glæsilegri með tímanum. Það er svo þurrt og ferskt í munni með kröftug og vegleg tannín sem eiga eftir að gefa þessu víni langlífi. Ávöxturinn er glæsilegur og á sömu nótum og í nefi og lifir hann lengi í munni. Þetta vín er ennþá gríðarlega ungt og víbrandi glæsilegt en ég er handviss um að það eigi eftir að slípast vel til á næstu 5 til 10 árum ef ekki lengur. Þeir sem hafa ekki þá þolinmæði verða allavega að leggja á sig að umhella því í góða stund.

Okkar álit: Ungt og víbrandi Barolo sem á eftir að springa út með tímanum. Virkilega glæsilegt þó ungt sé. Mæli með að kaupa nokkrar og leggja þær í dvala.

Verð 8.299 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply