Land: S-Afríka
Hérað: Ceres Plateau
Þrúga: 100% Syrah
Annað: 12 mánuðir á eikartunnum
Matarpörun: Lambakjöt og naut. Ræður við tilturlega bragðmikla rétti.
Op Die Berg þýðir einfaldlega “á fjallinu” og er það akkúrat þar sem að ávöxturinn sem notaður er í þetta vín er ræktað, uppí fjalli. Op Die Berg ekrurnar sem eru í umsjá De Grendel liggja í allt að 1000 metra hæð í Witzenberg fjöllunum í nyrsta hluta landsins. Hæðin, sem og svalt meginlandsloftslagið, gerir það að verkum að Syrah þrúgan nær löngu og góðu þroskaferli sem skilar sér í hágæðaþrúgum. Og það skilar sér heldur betur í beint í þetta vín.
Vínið er dimmfjólublátt og með opinn ilm af bláberjum, krækiberjum, lyngi, plómum, hvítum pipar, lavender, jarðveg og virkilega nettum eikartónum – allt saman pakkað fagmannlega saman í eina fallega heild. Algjörlega geggjaður ilmur. Í munni er það miðlungsþétt en nokkuð kraftmikið en þó fínlegt í gegnum allt saman. Mild og góð tannín sjá um frábæra byggingu vínsins ásamt góðum ferskleika sem er vel falinn bak við ómótstæðilegann ávöxtinn. Eftirbragðið er langt og hér er samspil ávaxtarins, kryddsins og eikarinnar sem gjörsamlega negla þetta. Algjörlega frábært vín og líklega eitt af betra vínum frá S-Afríku sem ég hef smakkað. Það hefur alla burði til að geymast í 5-8 ár þannig að ég mæli með að kaupa nokkrar og leggja eitthvað af þeim í dvala.
Okkar álit: Einfaldlega frábært Syrah frá ótrúlega vönduðum framleiðanda. Kraftmikið, fínlega, margslungið og langt. Bið ekki um mikið meira.