De Grendel víngerðin í Suður Afríku

De Grendel víngerðin er ein af rísandi stjörnum Suður Afrískra vína og er þessa dagana að sanka að sér verðlaunum fyrir framúrskarandi vín sín. Hún er staðsett í Durbanville, úthverfi Höfðabograr, og þrátt fyrir að víngerðin sé ung að árum á De Grendel búgarðurinn sér langa og gríðarlega ríka sögu sem er samofin sögu Suður Afríku. Búgarðurinn sem víngerðin er staðsett á í dag var stofnaður árið 1720 og er hann í dag einn af eldri búgörðum landsins. Á þeim tíma var vínviður ræktaður nokkuð víða á búgarðinum en í byrjun 19. aldar kom hin alræmda rótarlús, eða Charles Manson vínheimsins eins og einhverjir nefna hana, til Suður Afríku og lagði vínrækt landsins, sem og vínrækt De Grendel, í rúst.

Það er svo ungur maður af nafni Dawie Graaff sem átti eftir að breyta sögu De Grendel til frambúðar. Dawie Graaff fluttist til höfðaborgar ungur að aldri og efnaðist gríðarlega á stuttum tíma áður en hann snéri sér að pólitík. Hann er kjörinn borgarstjóri Höfðaborgar 31 árs og ári síðar, 1891, festir hann kaup á De Grendel búgarðinum til þess að hefja ræktun á stoðhestum og nautgripum. Pólitiskur ferill Dawie heldur áfram og er afar farsæll sem endar með að Georg V. Bretlandskonungur sæmir hann titlinum Barónett. Graaff fjölskyldan er alveg síðan þá mikilvægur partur af Suður Afrísku þjóðinni í gegnum súrt og sætt en má nefna þeim helst til hróss að hafa lengst af verið í stjórnarandstöðu í gegnum apartheit tímana.

Vínekrur De Grendel (mynd http://www.degrendel.co.za)

Um aldamótin tók búgarðurinn nýja stefnu sem hafði þó verið stunduð tæpum 200 árum áður, vínrækt. Sir David Graaff, þá 3. Barónettinn af De Grendel, ákvað að láta gott heita í stjórnmálum og reyna fyrir sér í víngerð. Hann ákvað að leggja 10 hektara land búgarðsins undir vínvið í tilraunaskyni og er víngerðin formlega stofnuð nokkrum árum áður. Í dag er það elsti sonur hans, Sir De Villiers Graaff 4. Barónett, sem rekur fyrirtækið og nýtur hann stuðnings reynsluboltans og yfirvíngerðarmannsins Charles Hopkins.

Charles Hopkins yfirvíngerðarmaður De Grendel ásamt Sir Villiers Graaff (mynd http://www.degrendel.co.za)

Víngerðin nýtir í dag um 100 hektara af landi búgarðsins undir vínvið og er hún með fáum víngerðum heims sem geta státað sig af því að vera með neikvætt kolefnisspor, m.a. með aðstoð sólarorku. Á þessum 100 hekturum eru ræktaðar Chardonnay, Merlot, Pinot Noir, Syrah, Sauvignon Blanc ásamt litlu magni af Cabernet Sauvignon, Petit Verdot og Cabernet Franc.

Það má heldur betur segja að að þeim feðgum, ásamt Charles Hopkins, hafi tekist vel til á þessum stutta tíma sem víngerðin hefur verið starfandi enda hafa vínin þeirra hlotið mikið lof gagnrýnanda og eru Vínsíðurnar engin undantekning þar á. Öll vínin eru einstaklega stílhrein og nær Charles Hopkins að láta þrúgurnar njóta sín og er öll tunnunotkun framúrskarandi. Lýsandi dæmi um þetta er De Grendel Op Die Berg Chardonnay 2020 þar sem ferskur suðrænn ávöxtur er í fullkomnu jafnvægi við ristaða eikartóna sem geta svo auðveldlega verið yfirgnæfandi. Rubyiat 2017 er eitt af toppvínunum þeirra og er það nokkuð sígild Bordeaux blanda þar sem að Cabernet Sauvignon og Petit Verdot leika aðalhlutverk ásamt Merlot og Malbec í aukahlutverki. Virkilega glæsilegt vín þar sem að jafnvægið er aftur lykilatriði. Stjarnan í línunni að mati Vínsíðanna er án efa Op Die Berg Syrah sem er nýjasta viðbótin úr þessari frábæru víngerð. Ólíkt Shiraz víninu þeirra úr grunn línu De Grendel ber þetta vín þrúguheitið Syrah sem er til heiðurs Syrah vína gamla heimsins og er þetta vín algjör perla. Aftur er jafnvægi áberandi og er bygging vínsins ásamt ávexti og eftirbragði eitthvað sem framkallar munnvatn við tilhugsunina.

De Grendel Op Die Berg Syrah (mynd http://www.degrendel.co.za)

You might be interested in …

Leave a ReplyCancel reply

Discover more from Vínsíðurnar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading