De Grendel Merlot 2018 **** (88)

Land: Suður Afríka
Hérað: Durbanville
Þrúga: 100% Merlot
Annað: 13 mánuðir á nýjum og notuðum frönskum eikartunnum
Matarpörun: Prófið með fylltum grísalundum eða hörðum ostum.

De Grendel víngerðin hefur vissulega heillað mig upp úr skónum síðustu vikur með stílhreinum og griðarlega vel gerðum vínum. Hér erum við með Merlot frá þeim úr grunnlínu víngerðarinnar og kemur ávöxturinn úr hlíðum Tygerberg. Vínið fær svo að þroskast í 13 mánuði á bæði nýjum og notuðum frönskum eikartunnum.

Vínið er rúbínrautt á litinn með opinn ilm sem einkennist af plómum, kirsuberjum, léttum kryddi, skógarbotni og endar þetta allt saman á ljúfum eikartónum og vanillu. Nokkuð þéttur og flottur ilmur. Í munni er það miðlungs bragðmikið með ljúf tannín og milda sýru sem gefur víninu flott jafnvægi. Ávöxturinn er nokkuð búttaður og safaríkur og kemur eikin skemmtilega inn í aukahlutverki undir lokin. Þetta er, eins og önnur vín frá De Grendel, afskaplega vel gert vín og ætti auðveldlega að geta höfðað til allra án þess þó að vera óspennandi. Drekkið núna, þetta á ekki eftir að verða mikið betra með geymslu.

Okkar álit: Aðlaðandi, ljúft og vel gert Merlot. Svokallaður “crowd pleaser”.

Verð um 3.500 kr

You might be interested in …

Leave a Reply