Land: Suður Afríka
Hérað: Durbanville
Þrúga: 100% Chardonnay
Annað: Gerjað í nýjum og notuðum frönskum eikartunnum og svo þroskað í 5 mánuði “sur lie”
Matarpörun: Bragðmiklir fiskréttir, smjörsteiktur humar eða svepparísótto.
Þrátt fyrir að Chenin Blanc sé óneitanlega þekktasta hvítvínsþrúga Suður Afríku virðist Chardonnay vera að vekja verðskuldaða athygli og eru hreint frábær Chardonnay vín að koma þaðan þessa dagana, svo ekki sé meira sagt. Hér er alveg hreint glimrandi gott dæmi um það. Ávöxturinn kemur frá vínekrum sem staðsettar eru í um 1000m hæð og virðist það vera lykilatriði í jafnvægi og ferksleika þessa víns. Berin eru handtýnd og er vínið látið gerjast í nýjum og notuðum eikartunnum áður en það fær svo að þroskast í 5 mánuði “sur lie” í sömu tunnum. Þetta gerir auðvitað að verkum að vínið hlýtur mjög áberandi eikarkeim.
Vínið er fallega strágyllt á litinn og með opinn ilm sem einkennist af ristuðum eikartónum, ristuðu brauði með smjöri, vanillu og kókós en í framhaldinu kemur svo afar ferskur ávöxtur fram með sítrus, melónum, appelsínum og dass af hunangi. Margslunginn og ljúffengur ilmur. Í munni er það svo miðlungs bragðmikið, frekar ferskt og kemur það smá á óvart að eikin færir sig úr aðalhlutverki í stuðningshlutverk sem leyfir ávextinum að njóta sín. Sem er sterkur leikur því að ávöxturinn er gómsætur og gefur þessu víni nokkur auka stig. Þetta er matarvænt vín en á sama tíma nokkuð auðvelt að njóta eitt og sér. Passið að drekka ekki of kalt.
Okkar álit: Virkilega fallegt og vel gert nýja heims Chardonnay. Bragðmikið, margslungið og einfaldlega ljúffengt.
Verð um 4000 kr