Cockburn’s 10 ára Tawny **** 1/2 (91)

Cockburn’s var stofnað árið 1815 af skoskum bræðrum, þeim John og Robert Cockburn, og hefur víngerðin alla tíð siðan þá farið ótroðnar leiðir í því sem hún gerir. Lýsandi dæmi um það er að um þriðjungur af vínviðnum þeirra í dag er undir Touriga National sem telur um 3% heildinni af þrúgunum sem eru notaðar í portvín. Symington samsteypan eignaðist víngerðina árið 2010 og hafa gæðin farið uppávið síðan þá og er hið stórskemmtilega Cockburn’s Special Reserve t.d. eitt vinsælasta portvín á heimsvísu í dag. Hér erum við þó með 10 ára tawny sem er alls ekki síðra.

Ljósrautt á litinn með smá brúnleitum tónum sem koma úr tunnuþroskuninni. Ilmurinn er opinn með góðann ávöxt, bæði þurrkaðan og ferskan, þar sem bláber, döðlur og plómur eru í aðalhlutverki ásamt dass af kryddi í bland við möndlur og valhnetur. Virkilega skemmtilegur stíll sem staðsetur sig nokkurn veginn á milli ungra portvín og þroskans sem tawny ber með sér. Í munni er það sætt, bragðmikið og nokkuð ljúft og er tunnan mun meira áberandi en í nefi. Endar á hunangsristuðum kryddhnetutónum.

Okkar álit: Virkilega skemmtilegt tawny sem heldur vel í ungdóminn en sýnir á sama tíma þroska.

Verð 4.690 kr (500ml)

You might be interested in …

Leave a Reply