Það eru margir á því að 20 ára tawny sé með fullkomið jafnvægi milli hins kraftmikla persónuleika ungra portvína og þroskaðra tóna sem verða til á þeim tíma sem vínið er geymt í tunnum. Auðvitað fer það eftir stíl hvers framleiðanda þar sem að það má blanda alls konar árum saman, svo lengi sem að meðalaldurinn er í samræmi við uppgefinn aldur á miðanum. Það er hins vegar mitt mat að Graham’s séu búnir að fullkomna þá blöndu.
Það er ljósbrúnt á lit með appelsínugulum tón sem segir strax til um góða tunnuþroskun. Í nefi er það opið með kemur manni strax á góða staðinn. Þurrkaðir ávextir, ljúf karamella, vanilla og létt ristaðar valhnetur eru í forgrunni en með smá tíma í glasinu taka þessir ljúfu hnetutónar ásamt karamellu yfir. Gjörsamlega geggjaður ilmur. Í munni er að nokkuð sætt og eru þurrkaðir ávextir nokkuð áberandi í fyrstu en aftur eru það karamelluhúðaðar hnetur og möndlur sem taka yfir og hangir heillangt eftirbragðið þar rétt áður en að ávextirnir koma aftur í blálokin og þakka fyrir sig.
Okkar álit: Langt, margslungið og einfaldlega ljúffengt tawny. Ætti í raun að vera á hverju heimili yfir aðventuna.
Verð 7.990 kr