Graham’s LBV 2015 **** 1/2 (91)

2015 var frábær árgangur nokkuð víða í Evrópu og er sá árgangur álitinn einn af þeim betri í Brodeaux, Rioja og víðar. Sama var upp á teningum í Douro dalnum og vildu margir meina að þetta væri fullkominn árgangur í alla staði en engu að síður voru margir portvínsframleiðendur tregir við að lýsa yfir framúrskarandi árgangi og gefa út árgangsportvín þó svo að einhverjir hafi gert það. Þeir sem gerðu það ekki vildu meina að þrátt fyrir frábær vín væru þeir ekki sannfærðir um að þetta væri árgangur sem mundi þola mikla geymslu og vildu því ekki gefa út árgangsportvín. Það má því segja að LBV frá þessum árgangi séu frábær kaup því þetta eru frábær vín og er ekki ætlast til að þau séu geymd í nokkra áratugi.

Liturinn á þessu er hnausþykkur og dimmrúbínrauður. Ilmurinn er opinn og kraftmikill með plómum, rúsínum, döðlum, lakkrís, dass af kryddi og dökku súkkulaði í aðalhlutverki. Gríðarlega ungur og víbrandi kraftmikill ilmur. Í munni er það sætt og kraftmikið með ansi þétta fyllingu og góð tannín. Eftirbragðið er langt og mikið og hangir það á krydduðum ávextinum. Þetta væri algjör negla með dökku súkkulaði og gráðosti ofaná.

Okkar álit: Gríðarlega þétt, kraftmikið og víbrandi unglegt. Á alveg nokkur ár eftir í flöskunni.

Verð 5.298 kr

You might be interested in …

Leave a Reply