Quinta do Vallado 10 ára Tawny **** 1/2 (90)

Quinta do Vallado var stofnað árið 1716 og á það sér ríka sögu í framleiðslu portvína og var það meðal annars í eigu hinnar mögnuðu Dona Antónia Adelaide Ferreira, sem er ákveðin goðsögn í Douro. Víngerðin er í dag í eigu afkomenda hennar og framleiða, flaska og selja þau sín eigin vín án viðkomu milligönguaðila eins og tíðkast ennþá í dag. Hér erum við með 10 ára tawny sem er blanda af Tinta Amarela, Touriga Franca and Touriga Nacional af gömlum vínvið og hefur fengið að dvelja og þroskast í eldgömlum 600 lítra eikartunnum.

Það er rauðleitt á lit með vott af brúnum tónum. Ilmurinn er opinn og óvenju ávaxtaríkur og er þetta mun yngri og kraftmeiri stíll en gengur og gerist í tawny. Þurkkaðir ávextir, krydd, tóbak og smá vottur af appelsínu í bakgrunni en tunnan er mjög tilbaka í nefinu. Í munni er það sætt, mjúkt og ansi kraftmikið og er tunnan aðeins meira áberandi en í nefi. Frábær og þurrkaður ávöxturinn er þó líka áberandi en endar þetta á dásamlegum hnetutónum.

Okkar álit: unglegt og ávaxtaríkt 10 ára tawny. Hrikalega vel gert og ljúffengt.

Verð 5.699 kr (500ml)

You might be interested in …

Leave a Reply