2016 var frábær árgangur í Douro dalnum og framleiddu nánast allir portvínsframleiðendur árgangsportvín það árið. Blautur vetur og annað eins vor gerði það að verkum að vatnsbirgðir jarðvegsins voru mjög góðar sem gerðu það að verkum að portvínin urðu fersk og björt. Það merkilega er að 2017, þrátt fyrir grjörólíkt veðurfar, var líka frábær árgangur þar sem að nánast allir portvínsframleiðendur gáfu aftur út árgangsportvín. Þetta hafði ekki gerst síðan 1873, sem er hreint ótrúlegt. Quinta do Vallado var engin undantekning og hér höfum við LBV frá 2016 sem er að mínu mati ennþá gríðarlega ungt og mun það að öllum líkindum verða stórkostlegt eftir nokkur góð ár í flöskunni.
Vínið er hnausþykkt og vel dimmfjólublátt á litinn. Ilmurinn er opinn og rosalega kröftugur með samanþjöppuð blábler, krækiber, brómber og sólber í forgrunni ásamt ríkulega af kryddum og dass af dökkusúkkulaði og kaffi. Það er svo mikið í gangi þarna að þetta er gjörsamlega að springa og verður gaman að smakka eftir nokkur ár. Í munni er það þétt og sætt með kröftug tannín sem eiga eftir að mýkjast. Fullt að gerast og er sami berjakokteill og var að finna í nefi ásamt léttum tunnukarakter sem er þó alveg í bakgrunninum. Virkilega kröftugur og unglegur stíll. Mæli eindregið með að umhella þessu víni eða geyma það á dökkum stað í nokkur ár.
Okkar álit: Ungt, kröftugt og víbrandi. Glæsilegt portvín sem á eftir að þroskast vel í flöskunni.
Verð 5.199 kr