Já, þið lásuð rétt. Portvín. Ekki púrtvín, því það er víst þannig að þessi vín eru nefnd eftir borginni Portó en ekki Púrtó eins og gamall vinur kenndi mér þegar ég var að stíga mín fyrstu vínskref. En nóg um það. Portvín hefur verið að sækja í sig veðrið hjá Íslendingum, sem betur fer, og eru margir á því að hluti af jólafílingnum sé að opna góða portvínsflösku í byrjun desember og fá sér glas annað slagið fram að jólum. Sjálfur er ég engin undantekning þar á og geng ég jafnvel það langt að halda því fram að portvín sé órjúfanlegur hluti aðventunnar sem og jólanna.
Hvað er portvín
Í grunninn er portvín rauð-, rósa eða hvítvín þar sem að viðbættur spíri hefur stöðvað gerjun áður en henni er lokið. Við það hækkar áfengismagn drykksins upp í sirka 20% en eftir verður glás af ógerjuðum sykri sem gerir vínið nokkuð sætt án þess að missa sinn upprunalega karakter. Vínin verða að vera framleidd á afmörkuðu svæði í Douro dalnum í Portúgal þar sem kröftug og glæsileg vín hafa verið framleidd síðan á tímum Rómverja. Það var hins vegar ekki fyrr en að Bretar lentu upp á kant við Frakka um miðja 17. öld sem portvín urðu almennilega vinsæl. Frakkar settu viðskiptabönn á Breta og Bretar svöruðu í sömu mynt og þurftu þeir þar af leiðandi að kaupa vín annars staðar en í Frakklandi og horfðu þeir til Portúgals. Þar voru þeir voru með sterka viðskiptastöðu og það vildi svo skemmtilega til að Portúgalar framleiddu einnig nokkuð góð vín. Fljótlega áttuðu breskir vínkaupmenn sig á að styrktu vínin sem voru þar framleidd þoldu sjóflutninginn til Lunduna mun betur en rauðvínin. Bretar voru fljótir að koma sig enn betur fyrir í Porto og stofnuðu allmörg fyrirtæki til að sjá um flutning þessum nýtilfundna drykk og sjáum við t.d. í dag að flest stærstu portvínshúsin bera enn bresk nöfn, t.d. Taylor’s, Graham’s og Cockburn’s. Vinsældir portvína hafa síðan þá ekki gert annað en aukast og er það fastur liður hjá bretum á jólunum að fá sér smá portvín með eftirréttinum allavega.
Tegundir portvína
Þó svo að portvín séu flest öll framleidd á sama máta þá eru til ýmsar útgáfur af þeim þó svo að það megi gróflega flokka þau í 2 flokka – tunnuþroskuð portvín og flöskuþroskuð. Sem er svolítið undarleg flokkun þar sem að flest þeirra eru geymd eitthvað í tunnum en sum fá meiri tunnuþroskun. Kannski væri betra að tala um tunnuþroskuð portvín og minna tunnuþroskuð portvín. Hver veit, en þið skiljið vonandi hvert ég er að fara með þetta.

Ruby portvín eru ung portvín sem hafa yfirleitt ekki verið geymd í meira en 2-3 ár á stórum eikartunnum og eru gerð til að njóta strax. Hér er ávöxturinn í aðalhlutverki og eru þessi portvín oft ansi kröftug, sæt og bragðmikil. Mæli með að drekka þessi vín við 16-18°c.
VÍNSÍÐURNAR MÆLA MEÐ
Cockburn’s Special Reserve **** (88)
Hér erum við með eitt vinsælasta portvínið á markaðnum í dag og er alveg hægt að skilja hvers vegna. Það var fyrst sett á markað árið 1969 og var því…
Late Bottled Vintage (LBV) er portvín sem er aðeins framleitt á árum sem ágrangsportvín eru framleidd (yfirlýstum portvínsárgöngum) en hefur verið geymt aðeins lengur á tunnum en árgangsvínið eða í fjögur ár að lágmarki. Oftar en ekki kemur ávöxturinn frá betri vínekrum en það sem fer í Ruby portvín. LBV er ætlað að gefa neytendum færi á að upplifa árgangsportvín án þess að þurfa að geyma það í mörg ár og geta á betri árum verið frábær kaup. Flest þeirra geta þroskast í nokkur ár í flöskunni en í mörgum tilfellum er það ekki nauðsýnilegt. Umhelling er oftast nauðsýnileg þar sem að mörg þeirra eru ófilteruð en einnig getur umhelling hjálpað ungum LBV vínum að opna sig almennilega. Mæli með að drekka þessi vín við 16-18°c.
VÍNSÍÐURNAR MÆLA MEÐ
Graham’s LBV 2015 **** 1/2 (91)
2015 var frábær árgangur nokkuð víða í Evrópu og er sá árgangur álitinn einn af þeim betri í Brodeaux, Rioja og víðar. Sama var upp á teningum í Douro dalnum…
Quinta Do Portal LBV 2013 **** 1/2 (91)
Quinta do Portal er í eigu Mansilha fjölskyldunnar sem hefur verið framarlega í framleiðslu portvína í yfir 100 ár en fjölskyldan hefur leikið stórt hlutverk í Douro dalnum alveg síðan…
Tawny er blanda af portvínum sem hafa verið geymd í töluverðan tíma í eikartunnum. Eins og með önnur vín þá breytast portvín töluvert með hverju árinu sem þau þroskast í tunnum og verður því bragðprófíllinn annar. Tawny án aldursmerkingu hefur fengið að þroskast í um 7 ár í tunnum en svo eru líka til tawny sem eru með 10, 20, 30 og 40 ára merkingar á miðanum. Sá aldur er meðalaldur vínsins í flöskunni. Þetta merkir að í 10 ára tawny getur verið alls konar samsetningar af þroskuðu portvíni bara svo lengi sem að meðalaldur blöndunnar er að lágmarki 10 ára. Þessi portvín hafa misst töluvert af hinum unga, víbrandi og dökka ávexti og í staðinn þróað með sér hnetu-, karamellu- og eikartóna. Einnig fölna vínin tölvert með aldrinum og fá fallega brúnleitan lit. Mæli með að drekka þessi vín við 14-16°c.
VÍNSÍÐURNAR MÆLA MEÐ
Graham’s 20 ára Tawny ***** (95)
Það eru margir á því að 20 ára tawny sé með fullkomið jafnvægi milli hins kraftmikla persónuleika ungra portvína og þroskaðra tóna sem verða til á…
Les meira…Cockburn’s 10 ára Tawny **** 1/2 (91)
Cockburn’s var stofnað árið 1815 af skoskum bræðrum, þeim John og Robert Cockburn, og hefur víngerðin alla tíð siðan þá farið ótroðnar leiðir í því sem…
Les meira…Bulas 20 ára Tawny
Fyrir ekki svo löngu þá fjallaði ég um tvö afskaplega skemmtileg rauðvín frá Bulas en nú þegar stutt er í hátíð ljóss og friðar þá er…
Les meira…Vintage (árgangs) portvín eru aðeins framleidd á framúrskarandi árum og eru aðeins gerð úr bestu þrúgunum frá bestu ekrum framleiðanda. Þetta er flagskipið. Þau eru yfirleitt sett á markað 2 árum eftir uppskeru þannig að tunnuþroskunin er ekki mikil og er hugmyndin sú að leyfa vínunum að þroskast í flöskunni. Sem kemur sér nokkuð vel því árgangsportvín er með þeim vínum sem geta geymst lengst allra vína og er hæglega hægt að geyma þau í 50 ár, og sum mun lengur. Það sem er magnað með þessi vín er að þrátt fyrir mikið geymsluþol eru þau algjörlega frábær á öllum aldursstigum. Í barnæsku eru þau kröftug, ávaxtarík, dökk og seiðandi en þegar líður á unglingsárin verða þau aðeins mildari þó svo að ávöxturinn haldist víbrandi og kröftugur. Þegar þau verða loks miðaldra eru þau öll orðin nokkuð mildari og fínlegri með rúnaðri ávexti, kryddi og léttum oxunartónum. Gráðostur hefur alltaf verið kjörinn félagi árgangsportvína en einnig smellpassa þau með súkkulaðieftirréttum þar sem dökkt súkkulaði kemur við sögu. Eini ókosturinn er sá að þegar flaskan er opnuð endist hún einungis í nokkra daga, ólíkt tawny. Mæli með að drekka þessi vín við 16-18°c.
VÍNSÍÐURNAR MÆLA MEÐ
Sandeman Vau Vintage 1999 **** 1/2 (92)
Gert úr Tinta Roriz, Touriga Franca og Touriga Nacional og kemur ávöxturinn frá Quinta do Vau sem liggur á hægri bakka Douro. Vínið er framleitt á staðnum og geymt fram á…
Lesa meira…Traustur vinur sem fylgir þér í gegnum Desember
Ólíkt léttvínum sem þola ekki mikla geymslu eftir að tappinn er tekinn úr þá geymst flest portvín ágætlega eftir opnun. Tawny er það efst á blaði enda er vínið búið að þroskast í ansi mörg ár í tilturlega súrefnismiklu umhverfi eikartunnanna og er þar af leiðandi byrjað að oxast, sbr. brúnleitur litur tawny vína, en þó á góðann hátt. LBV hefur einnig fengið góða tunnuþroskun og heldur því velli nokkuð lengur en léttvín en þó styttra en tawny. Það er þó ekki þannig að þessi vín breytast ekki neitt á þessum tíma eftir opnun en þau breytast hægar og mögulega án þess að hinn almenni neytandi taki eftir því. Árgangs portvín er því miður ekki jafn seig eftir opnun. Þau hafa ekki fengið að oxast jafn legni í tunnum og eru því faktískt séð ekkert öðruvísi en léttvín en þó spilar hærra áfengismagn og meiri sykur stórt hlutverk í að þau þola nokkra daga umfram venjulega léttvín. Drekkið innan viku eftir opnun.
Portvín og matur
Hin sígilda matarpörun er blámygluostur og portvín. Það væri í raun hægt að stoppa þarna og það mundi enginn kvarta. Hins vegar er lífið margslungið og því leiðinlegt að prófa ekki nýja hluti. LBV og dökkt súkkulaði er t.d. hreinn unaður og tala nú ekki um ef maður setur smá gráðost ofan á súkkulaðið. Galið? Nei, geggjað! Annars eru flestir eftirréttir sem innihalda súkkulaði góð pörun við árgangsportvín og LBV ef út í það er farið. Tawny er aðeins öðruvísi og ekki jafn kröftugt þannig að það þarf að vanda valið betur. Eftirréttir sem innihalda þurrkaða ávexti, karamellutóna eða jafnvel hnetur eru tilvaldir með tawny en einnig eru harðir þroskaðir ostar einstaklega ljúffengir félagar.

2 Comments