Pomerol

Af öllum stærstu og frægustu undirhéruðum Bordeaux er Pomerol minnst en þrátt fyrir smæðina koma nokkur af stórkostlegustu vín héraðsins og í raun heimsins þaðan. Héraðið liggur um 40 km austan við Bordeaux borg og eru um 800 hektarar lands undir vínvið. Skráðir vínframleiðendur eru um það bil 150 talsins og gefur því augaleið að hver framleiðandi er ekki með mikið land til umráða. Þetta hefur orðið til þess að hin gríðarlega eftirspurn eftir þessum frábæru vínum er engann veginn í samræði við framboðið og samkvæmt eðli hagfræðinnar þá leiðir það til þess að verðin eru töluvert hærri en víðar. En við skulum ekki gleyma því að vínin eru mörg hver frábær og kannski ekki óeðlilegt að þau kosti sitt.

Ólíkt öðrum undirhéruðum Bordeaux þá er Pomerol ekki með neitt gæðakerfi. Margir kunna að þekkja hið 176 ára gamla flokkunarkerfi Médoc héraðsins sem raðar framleiðendum í 5 flokka eða hið sveigjanlegra kerfi St. Émilion sem tekur mið af gæðum víngerða með reglulegu eftirliti. Í Pomerol er ekkert slíkt í kerfi og er orðspor vínanna það sem telur. Það eru einhverjir sem vilja meina að gæðakerfi sé í raun algjör óþarfi miðað við hvað eftirspurnin er langt umfram framboð. Eigendur Pétrus, Chateau Lafleur og Le Pin kunna ef til vill að vera hjartanlega sammála því.

Merlot þrúgan ræður ríkjum í Pomerol og um 70% af þeim tæpum 800 hekturum af vínvið sem eru þar ræktaðir eru Merlot. Restin eru að mestu leiti Cabernet Franc en eitthvað af Cabnernet Sauvignon og Malbec er líka ræktað. Einstakur leirkenndur jarðvegur svæðisins hentar Merlot þrúgunni einstaklega vel og gefur henni einstakan lit sem og karakter. Einnig hentar loftslag og lega svæðisins þrúgunni afar vel og gerir það að verkum að hún þroskast snemma sem gerir henni kleift að ofþroskast ekki sem og að viðhalda sýrustigi. Þetta gerir að verkum að vínin fá frábæra byggingu og geta enst árum saman.

You might be interested in …

Leave a Reply