Saint-Émilion

Saint-Emilion á sér gríðar langa sögu þegar kemur að vínrækt og er svæðið í raun elsta vínræktarsvæði Bordeaux héraðsins. Vín hefur verið framleitt á svæðinu frá því á tímum Rómverja og var Saint-Émilion fyrsta svæði héraðsins til að stunda útflutning á vínum. Það er staðsett á hægri bakkanum svokallaða um 50km austan við Bordeaux borg og er nokkuð mikið land lagt undir vínvið, eða um 5.500 hektarar, sem skiptist milli tæplega 800 framleiðendur. Svæðið er með nokkuð sveigjanlegra gæðakerfi en nágrannar þeirra á vinstri bakkanum og er því skipt í tvo flokka; Saint-Émilion AOC og Saint-Émilion Grand Cru Classé. Hið síðurnefnda er síðan skipt í eftirfarandi undirflokka:

Premier Grand Cru Classé A (4 framleiendur)
Premier Grand Cru Classé B (14 framleiðendur)
Grand Cru Classé (64 framleiðendur)

Þetta gæðakerfi er endurskoðað u.þ.b. á 10 ára fresti og byggir endurmatið m.a. framleiðsluþáttum, stjórnun á vínekrum og kannski mikilvægast – blindsmakki óháðrar nefndar á nokkrum árgöngum aftur í tímann. Þrátt fyrir að virka nokkuð skothelt hefur þetta ferli alls ekki verið óumdeilt og var endurskoðunin árið 2006 dæmd ógild. Framleiðendur sem voru settir niður um flokk voru greinilega ekki sáttir við það og kærðu.

Ólíkt vinstri bakkanum þar sem Cabernet Sauvignon ræður ríkjum þá er það Merlot sem er stjarnan í Saint-Émilion. Leir- og malarkenndur jarðvegurinn hentar þrúgunni einstaklega vel og hjálpar henni að þroskast frekar snemma sem gerir það að verkum að ávöxturinn helst ferskur sem er gríðarlega mikilvægt fyrir Merlot vín. Mörg bestu bestu svæðin liggja í kringum Saint-Émilion þorpið í hjarta svæðisins en einnig eru ekrurnar sem liggja við hlið Pomerol svæðisins mikils metnar. Þó svo að Merlot sé í miklum meirihluta er þónokkuð af Cabernet Franc að finna en einnig er Cabernet Sauvignon nokkuð víða og hafa framleiðendir verið að gróðursetja meira af henni síðustu ár en þó aðallega til þess að styða við Merlot.


You might be interested in …

Leave a Reply