Luca Old Vine Malbec 2019 **** 1/2 (92)

Fyrir stuttu fjallaði ég um hið frábæra Laborde Double Select Syrah frá Luca, sem kemur úr smiðju Lauru Catena. Eins og ég fór yfir þar þá stofnaði hin magnaða Laura víngerðina Luca árið 1999 þegar hún var aðeins 30 ára og nefndi hún víngerðina í höfuðið á nýfæddum syni sínum. Ávöxturinn sem fer í þetta vín kemur af rúmlega 50 ára gömlum Malbec plöntum sem vaxa í rúmlega 1000m hæð yfir sjávarmáli í Uco dalnum í Mendoza. Aldurinn á plöntunum gerir það að verkum að þær framleiða færri vínber á hverja plöntu en gæðin í hverju vínberi er þar af leiðandi mun meiri og er það svosem þumalputtaregla í víngerðinni. Minni safi, meiri gæði. Þó eru undantekningar á því. Vínið fær svo að þroskast í 12 mánuði á frönskum eikartunnum þar sem þriðjungur þeirra eru nýjar og restin annars árs tunnur. Nýlega var þetta vín kynnt í 21. sæti yfir 100 bestu vín ársins 2021 skv. Wine Spectator en sjá má listann í heild sinni hér.

Þetta frábæra vín er dimmrautt á litinn og er svolítið feimið í nefi til að byrja með og mæli ég með því að gefa því smá tíma í glasinu til að opnast almennilega. Þegar það svo gerist kemur fram djúpur og frábær ilmur. Fullt af plómum, kirsuberjum og sólberjum ásamt dass af súkkulaði, kaffi, vanillu, léttu kryddi og nautasoði. Í munni er það ansi þétt og frekar bragðmikið en þó milt, með ljúf tannín og góða sýru til að halda þessu öllu saman. Glás af rauðum berjum í munni ásamt góðum tunnukarakter og fylgir það því sem var að finna í nefi. Flott jafnvægi, góð bygging og langt eftirbragð.

Okkar álit: Frábært og margslungið Malbec. Gæðin eru algjörlega til fyrirmyndar og það virðist vera sama hvað Laura Catena gerir, það klikkar aldrei.

Verð um 5.500 kr hjá UVAvino ehf

You might be interested in …

Leave a Reply