Ruffino víngerðin er rótgróin víngerð sem á fjöldann allann af vínekrum hér og þar í Chianti Classico. Saga Ruffino nær aftur til 1877 en það var árið 1920 sem var ákveðinn vendipunktur Ruffino þegar hertoginn af Aosta skipaði víngerðina sem konunglegan birgja og er Riserva Ducale nefnt til höfuð þess atburðar. Vínið er eins sígilt og Chianti Classico verður. Ávöxturinn kemur frá þremur af 6 vínekrum víngerðarinnar og er blandan 80% Sangiovese sem er svo blandað með þrúgum sem eru leyfðar samkvæmt ströngum reglum svæðisins. Vínið fær svo að þroskast í 12 mánuði á stórum frönskum eikartunnum og svo annað eins í stáltönkum áður en það er svo sett á flöskur.
Liturinn er frekar léttur og fallega rúbínrauður. Opinn ilmurinn öskrar Sangiovese með súrum kirsuberjum, leðri, ferksu tóbaki, sveit og léttum kryddtón á bakvið. Virkilega vinalegur ilmur sem ætti að hlýja aðdáendur Chianti Classico um hjartarætur. Í munni er það miðlungs bragðmikið með ákveðin en ljúf tannín og áberandi sýru. Bragðið einkennist af sömu krisuberjum og var í nefi og endar það á leður- og kryddtónum. Hafið þetta með lambahrygg eða í raun hvers kyns betri lambasteikum.
Okkar álit: Dæmigert og sígilt Chianti Classico. Vel gert vín sem ætti ekki svíkja aðdáanda svæðisins.
Verð 3.699 kr