Finca Martelo 2015 **** 1/2 (93)

Síðan að La Rioja Alta hópurinn keypti Torre de Oña víngerðina árið 1995 hefur ímynd víngerðarinnar stórbreyst og má líkja henni við Bordeaux framleiðanda sem framleiðir einungis 2-3 vín og leggur allt púður í þau. Ég smakkaði hið stórskemmtilega Finca San Martín Crianza 2017 fyrr á árinu sem er þeirra ódýrasta vín (þriðja vínið ef við yfirfærum þetta á Bordeaux) og gaf það tónin hressilega fyrir hin tvö fyrir ofan. Hér erum við með “toppvínið” Finca Martelo sem er Rioja vín í nútímalegum stíl og er greinilega ætlað að vera aðgengilegt á sama tíma og þar er margslungið og vandað. Þrúgurnar sem eru notaðar eru að lang meistu leiti Tempranillo (95%) og restin er svo tilfallandi samsetning af Garnacha, Mazuelo og hinni hvítu Viura. Vínið fær svo góða eikarmeðferð og er 80% af víninu geymt í amerískum ekartunnum í 24 mánuði á meðan hin 20% eru geymd á frönskum eikartunnum í jafn langann tíma. Ekki skemmir svo fyrir að 2015 árgangurinn var framúrskarandi í Rioja.

Vínið er þétt og dimmrautt á litinn. Ilmurinn er opinn og afskaplega vinalegur strax frá fyrsta sniffi með milda vanillu og kókos í aðalhlutverki en eftir smá öndun í glasi koma fram glás af jarðarberjum og kirsuberjum fram ásamt dass af leðri, kryddi, kryddjurtum og piparkökum í bakgrunninum. Afskaplega margslunginn og aðlaðandi ilmur sem hægt er að dvelja drykklanga stund yfir. Í munni er það þétt, flauelsmjúkt og nokkuð bragðmikið en góð sýra og ljúf tannín gefa víninu frábæra byggingu. Eikin er enn sem áður í lykilhlutverki en rauður ávöxturinn og ljúft kryddið stendur vel með henni. Langt eftirbragðið hangir á tunninni.

Okkar álit: Frábært vín, frábær árgangur, frábær framleiðandi. Legg ekki meira á ykkur.

Verð 4.999 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply