Hér er vín sem hefur stuðað ansi marga vínnörda síðan það kom á markað árið 2014. Flestir nördarnir fussa og sveia yfir þessu fyrirbæri og sumar ganga það langt að segja að þetta sé ekki vín. En hver er glæpurinn að þeirra mati? Jú, að vínið sé látið þroskast í notuðum bourbon eikartunnum. Hræðilegt! Eða svo finnst þeim. Ég er á því að óhofleg íhaldssemi sé ekki góð og að það beri að taka nýjungum með opnum hug en ekki fordómum og hræðslu. Það er akkúrat ekkert að því að prófa sig áfram svo lengi sem það er gott á bragðið. Neytendur virðast vera á sama máli og ég því að á þessum 7 árum hafa vinsældir þessa vína margfaldast og hafa stórir framleiðendur stokkið á vagninn og byrjað að framleiða bourbon tunnuþroskuð rauðvín.
Þetta vín er með fallegan miðlungsþéttan kirsuberjarauðan lit. Það er pínu feimið í byrjun en opnast fljótt með sólber, plómur, rúsínur, sultaðan ávöxt, kókos, vanillu, kanil og lakkrís í nefi. Nokkuð dökkur en huggulegur ilmur og eru bourbon áhrifin ekki jafn mikil og ég átti von á. Í munni er það þétt með smá sætuvott, fínustu sýru á móti og mjúk tannín. Það er frekar einfalt í á tungunni með rauðan ávöxtinn í bland við vanillu og kókos og endar það á sætum nótum sem gerir þetta hrikalega auðdrekkanlegt. Alveg sama hvað hneyksluðu nördarnir segja, þetta virkar. Drekkið með BBQ rifjum eða safaríkum hamborgara.
Okkar álit: Einfalt, auðdrekkanlegt og pínu sætt. Sé alveg afhverju fólk fílar þetta þó svo að þetta sé ekki endilega minn tebolli.
Verð 3.699 kr