E. Guigal Côte-Rôtie 2017 ***** (95)

Côte-Rôtie svæðið er nyrsta vínræktarsvæði Rónardalsins og mögulega eitt það áhugaverðasta. Svæðið er afar lítið, aðeins rétt rúmlega 200 hektarar eru undir vínvið, og er eftirspurn eftir þessum stórkostlegu vínum gríðarleg sem gerir það að verkum að vínin eru oftar en ekki nokkuð hátt verðlögð. En það er ekki bara eftirspurnin sem hækkar verðið heldur er kostnaðurinn við að viðhalda ekrurnar gríðarlega mikill. Ekrurnar liggja nefnilega í miklum bratta og eru bröttustu brekkurnar það brattar að það er hreinlega erfitt að komast upp. Viðhaldið er mikið og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það uppskeran er seinleg og líkamlega erfið. Eins og svo víða í Norður Rón er Syrah aðal stjarnan hér og er hún í raun eina leyfða rauðvínsþrúgan á svæðinu. Aðeins Viognier, sem er hvítvínsþrúga, er leyfð samhliða Syrah en einungis má hún vera 20% af blöndunni og er það afar sjaldgæft að framleiðendur fari það hátt. Þessi árgangur frá Guigal er t.d. 96% Syrah og einungis 4% Viognier. Eftir gerjun fær vínið að þroskast í 36 mánuði á frönskum eikartunnum og er helmingur þeirra nýjar.

Vínið er rúbínrautt á litinn og með opin og kröftugan ilm. Ilmurinn er blómlegur í byrjun með fjólur og lavender en fljótlega kemur fram ljúft krydd, safarík kirsuber, krækiber, bláber, mildur eikartónn, kaffi, kanill og kjötsoð í lokin. Virkilega margslunginn ilmur sem á örugglega eftir að breytast helling með góðri öndun. Í munni er það kröftugt og ansi bragðmikið með áberandi en ótrúlega ljúf tannín sem bráðna nánast uppí þér. Ljúffeng bláber, krækiber og kirsuber leika lausum hala í munni og endar það á blómlegum kryddnótum. Ávöxturinn er algjörlega to die for og byggingin algjörlega upp á 10. Þetta er einfaldlega frábært vín sem er alveg hægt að njóta núna strax en ég er nokkuð viss um að það muni þroskast afar vel í 10 ár í viðbót! Drekkið með góðri steik eða með bragðmikilli villibráð.

Okkar álit: Margslungið og magnað vín í alla staði.

Verð 8.998 kr

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply