Nú er heldur betur farið að styttast í jólin og eflaust langflestir löngu búnir að ákveða hvað eigi að borða yfir hátíðarnar. Það eru hins vegar mun færri sem eru búnir að ákveða hvað skuli drekka með matnum og er þessi árlega spurning alltaf eitthvað sem við vínnördar elskum að skrifa um. Staðreyndin er bara sú að gott vín getur lyft góðri máltíð á annað plan og þeir sem hafa upplifað það gleyma því seint. En áður en lengra er haldið er gott að hafa fernt á hreinu.
Í fyrsta lagi er þessi grein, eins og allir mínir víndómar, byggð á mínum persónulega smekk og eru þessar paranir eitthvað sem ég hef prófað og kann vel að meta. En smekkur manna er jafn misjafn og við erum mörg þannig að það sem mér þykir gott þykir öðrum kannski vonlaust. Gott er að nota svona tillögur og leiðbeiningar til þess að finna út sinn eigin smekk og vera óhræddur við að prófa nýja hluti. Í öðru lagi, drekktu það sem þér finnst gott með þeim mat sem þér finnst góður. Mjög mikilvægt! Ef þér finnst gott að drekka kraftmikið rauðvín með humrinum skaltu gera það þó svo að ég, eða eitthvað annað vínnörd, segi þér eitthvað allt annað. Munum að njóta því þegar öllu er á botninum hvolft þá skiptir það öllu máli. Í þriðja lagi, ekki reyna að finna vín með hangikjötinu því það er vonlaust. Ég er búinn að prófa nánast allt og þó svo að eitthvað gæti mögulega verið allt í lagi með hangikjötinu þá nær það ekki lengur en akkúrat það – að vera allt í lagi. Malt og appelsín er lang besta pörunin með reyktu og vel söltuðu hangikjötinu. Í fjórða lagi þá skal huga vel að meðlætinu. Við erum oft svolítið föst í að para vín með kjötinu en oft er kjötið ekki það bragðmesta á disknum og þá er allt í einu meðlætið farið að skipta öllu máli.
Hér eru nokkrar tillögur að vínum með sígildum jólamat.
Humar
Með humrinum mæli ég augljóslega með hvítvíni, hvort sem það er með kolsýru eða ekki. Aðalmálið er að hvítvínið sé sýruríkt og ekki of bragðmikið því að við viljum ekki að vínið yfirgnæfi humarinn. Annað sem ber að hafa í huga er matreiðslan á honum. Ef hann er smjörsteiktur með hvítlauk liggur leiðin í eikað hvítvín en ef ekki þá sleppum við eikinni. Augljósi kosturinn er að velja gott Chablis vín en þar sem að við erum smá ævintýragjörn þá mæli ég með hinu stórskemmtilega Gaba do Xil Gordello 2019 eða Domaine Weinbach Cuvée Theo Riesling ef humarinn er ekki smjörsteiktur. Gott freyðivín getur líka smellpassað þar. Marques de Casa Concha Chardonnay 2018 gæti hins vegar smellpassað með smjörsteiktum humri.
Hamborgarhryggur
Hin sígilda jólasteik. Ég hef prófað ansi mörg vín með blessuðum hryggnum en seltan og reykurinn gerir ansi mörgum vínum lífið leitt, nema Pinot Gris frá Alsace sem hefur fullkomna byggingu til að ráða við kjötið án þess að yfirgnæfa og nægilega litla/mikla sætu til að mæta reyknum og seltunni. Ef þið hafið ekki prófað það get ég lofað ykkur því að þetta er svokallaður leikbreytir. Mæli með Willm Pinot Gris Reserve 2020 sem gott dæmi.
Hreindýr
Hreindýrakjötið er ansi bragðmikið kjöt en það er líka nokkuð fínlegt þannig að það þarf að passa að drekka ekki of mikinn bolta með því, þaðværi algjör synd að finna ekkert bragð af hreindýrinu. Hér mæli ég eindregið með E. Guigal Vignes de l’Hopsice Saint-Joseph 2016 en einnig væri Tommasi Ca’Florian Amarone Riserve 2012 gríðarlega skemmtilegt. Nú ef við viljum ekki kafa svona djúpt í vasana þá tikkar Emiliana Coyam 2019 í öll boxin.
Rjúpa
Blessuð rjúpan er ein af bragðmestu villibráðunum okkar og kallar hún á bragðmikið vín. Syrah þrúgan virðist hafa einstakt lag við að ráða við bragðmikla villibráð og er því ekki úr vegi að mæla með hinu stórkostlega E. Guigal Côte-Rôtie 2017. Ef við höldum okkur í Rónardalnum þá mæli ég með annari perlu frá Guigal fjölskyldunni eða E. Guigal Chateauneuf-du-pape 2016.
Nautakjöt
Það eru margir sem eru með góða nautasteik á jólunum og síðustu ár hefur Wellington verið að sækja í sig veðrið. Hér ætlum við að sækja kraftmikil rauðvín sem ræður við bragðmikið nautið en við viljum ekki hafa það of bragðmikið. Tannín er kostur ef kjötið er feitt, t.d. með ribeye. Finca Martelo 2015 er afar góður kostur með Wellington en einnig má líta til Escorihuela Gascon Gran Reserva Malbec 2017. Fyrir þá sem kjósa að vera með ribeye þá mæli ég eindregið með Vietti Barolo Castiglione 2017.
Kalkúnn
Þegar við veljum okkur vín með kalkúninum þá þurfum við að horfa framhjá kjötinu og huga að meðlætinu og þá sérstaklega fyllingunni. Almennt séð mundi ég mæla með MacMurray Estate Russian River Pinot Noir 2017 fyrir meðalbragðmikla fyllingu en ef fyllingin fer að verða bragðmeiri og þyngri þá mæli ég með Campo Viejo Gran Reserva 2014.
Lambakjöt
Lambakjöt er ekki jafn bragðmikið og krefjandi og nautið og kallar þar af leiðandi á aðeins léttari rauðvín án þess þó að fara Pinot Noir. Rioja vín hafa oft verið góður ferðafélagi lambsins og get ég mælt með Campo Viejo Gran Reserva 2014 eða Marques de la Concordia Reserva 2015 og svei mér þá ef að Finca Martelo 2015 mundi ekki smellpassa með góðum lambahrygg.
Önd
Öndin er flókin viðureignar þegar kemur að vínum. Þegar ég segi flókinn þá meina ég ekki að það sé erfitt að finna vín með öndinni heldur er afar fjölbreytt hvernig við matreiðum hana. Heil önd kallar t.d. á nokkuð bragðmikið vín og væri hægt að líta til Bordeaux en einnig kæmi ljúft Malbec til greina, t.d. Escorihuela Gascon Gran Reserva Malbec 2017. Ef við erum með bringurnar þá þarf svolítið að huga að meðlætinu frekar en kjötinu sjálfu en gott Pinot Noir gæti virkað vel þar. Svo eru það blessuðu lærin, eða anda confit. Þar ertu með allt annan leik í gangi og hér þarftu vín með svolítið persónuleika til að ráða við bragðmikil lærin og er Barahonda Summum 2018 verðurgur samherji þar.
Eftirréttir
Ætla ekki að fara að telja upp þá óteljandi eftirrétti sem fólki gæti dottið í hug að vera með um jólin og vín sem gætu passað með. Ætla í raun bara að nefna þrennt. Ef þú ert með súkkulaðieftirrétt skaltu hugsa portvín. Árgangs eða LBV. Ef þetta er einhvers konar karamellu eftirréttur eða ís skaltu hugsa tawny portvín. Ef þetta er einhvers konar ávaxtaeftirréttur skaltu hugsa Sauternes, eða allavega sætvín úr hvítvínsþrúgum.