Tommasi Amarone della Valpolicella Classico 2017 **** (89)

Þetta vín þarf vart að kynna fyrir lesendum Vínsíðanna frekar en önnur vín frá Tommasi. Þetta Amarone hefur verið á mörgum borðum enda stenst það gæðakröfur landsmanna árgang eftir árgang og hefur sjaldan klikkað. Vínið er framleitt samkvæmt hefðinni, þ.e.a.s. berin eru tínd og lögð á strámottur þar sem þau eru þurrkuð í um 3 mánuði. Þetta gerir að verkum að berin missa allt að helminginn af vigt sinni í formi vatns sem þýðir að ávaxtasykurinn verður hlutfallslega meiri en venjulega og bragðið verður allt annað. Þar sem að berin eru svona “konsentreruð” verða vínin kröftug og nánast í öllum tilfellum áfengismeiri. Að lokum fær vínið að þroskast í stærðarinnar slóvenskum eikartunnum í 3 ár og eitt ár í flöskunni áður en það er sett á markað.

Vínið er fallega rúbínrautt á litinn og nokkuð opið í nefi. Sultuð kirsuber eiga sviðið fyrst um sinn en fljótlega bætast við mild krydd, ásamt plómum, rúsínum, döðlum og rykugum jarðvegi. Nokkuð samanþjappaður ilmur sem þarf aðeins að opna sig. Í munni er það ansi kröftugt en mjúkt á sama tíma með hraustleg tannín og góða byggingu. Rúsínur, kirsuber, lakkrís og krydd eru áberandi í bragði og endar þetta á leðurtón. Hafið þetta með bragðmikilli villibráð eða þroskuðum hörðum ostum.

Okkar álit: Nokkuð kröftugt og mjúkt Amarone vín sem er afar aðgengilegt.

Verð 5.999 kr

You might be interested in …

Leave a Reply